Skoðun

Lokað á lausnir í leik­skóla­málum

Einar Þorsteinsson skrifar

Það er afar leitt að sjá að „meirihlutinn“ sem vill ekki láta kalla sig meirihluta heldur „samstarfsflokka“ hafi ákveðið að láta kreddustjórnmál vinstri vængsins ráða för í leikskólamálum. Það kemur kannski ekki á óvart en nýr meirihluti hefur ákveðið að hafna hugmyndum um vinnustaðaleikskóla sem Framsókn reyndi að fá samþykktar í síðasta meirihluta. Þessir flokkar, Samfylking, Píratar, VG, Flokkur fólksins og Sósíalistar skulda því barnafjölskyldum skýr svör um hversvegna þeir vilja ekki skjóta fleiri stoðum undir leikskólakerfið.

Það eina sem sést í nýjum samstarfssáttmála um leikskólamál er að skipa „spretthóp“. En verkefni spretthópsins er einfaldlega að taka við nær fullbúnum tillögum frá hópi sem ég hef leitt frá því í október. Þar unnum við Árelía Eydís Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingar þétt saman.

Ég boðaði til mín nær vikulega þá sem máli skiptu innan borgarkerfisins og úr varð aðgerðaáætlun sem hraða mun uppbyggingu plássa um alla borg auk ný forgangsröðun viðhaldsframkvæmda sem miðar að því að koma eldri skólum aftur í rekstur.

Hryggjarstykkið í þeim tillögum var að kaupa einingahús undir leikskóladeildir, bjóða út strax og setja niður á lóðum við leikskóla í þeim hverfum þar sem eftirspurnin er mest eftir plássum. Þessi áætlun er þegar kostnaðarmetin, fjármögnuð og tímasett og unnin undir minni forystu. Þess vegna er þetta fullkomlega marklaus spretthópur meirihlutans. Tillögurnar eru tilbúnar.

Það sem barnafjölskyldur þurfa að vita um áform meirihlutans er að hann er búinn að loka á hugmyndir um leikskóla á vinnustöðum eins og á Landspítalanum eða Alvotech en viðræður við þessa vinnustaði hafa gengið vel og eru langt komnar. Fleiri vinnustaðir hefðu án efa komið í kjölfarið. Þar hefðu börn starfsmanna og börn úr hverfum borgarinnar fengið pláss sem nú verða ekki til.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Reykjavík og fyrrverandi borgarstjóri




Skoðun

Sjá meira


×