Orri klúðraði dauða­færi og Man United slapp í burtu með jafn­tefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Oiarzabal fagnar jöfnunarmarki sínu á móti Manchester UNited í kvöld.
Mikel Oiarzabal fagnar jöfnunarmarki sínu á móti Manchester UNited í kvöld. AFP/ANDER GILLENEA

Real Sociedad og Manchester United gerðu 1-1 jafntefli í kvöld í fyrri leik sínum í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta.

Orri Steinn Óskarsson byrjaði á bekknum hjá spænska liðinu en hefði getað skorað sigurmarkið sjö mínútum fyrir leikslok en hitti þá því miður ekki markið úr dauðafæri.

Manchester United komst yfir í leiknum og var hættulegra liðið fram eftir leik og úrslitin eru því vonbrigði. Lokakafli leiksins var samt United mönnum erfiður.

Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn sem var í daufara lagi. Real Sociedad var meira með boltann en Manchester United fékk hættulegri tækifæri.

Fyrsta markið kom ekki fyrr en á 57. mínútu og það skoraði Joshua Zirkzee fyrir United. Manchester liðið náði góðri sókn sem endaði með að Alejandro Garnacho gaf boltann með jörðinni rétt út fyrir teiginn þar sem Zirkzee náði föstu skoti. Markvörður Sociedad var samt illa staðsettur og leit ekki vel út í þessu marki en sóknin sem bjó til markið var mjög góð.

United var yfir í þrettán mínútur eða þar til að Mikel Oyarzabal jafnaði með marki úr vítaspyrnu.

Vítaspyrnan var óvænt dæmd eftir afskipti myndbandsdómara. Þá kom í ljós að Bruno Fernandes fór með höndina í boltann eftir fyrirgjöf. Hann gat lítið mótmælt því en þetta sást ekki vel fyrr en í endursýningum.

Orri Steinn Óskarsson kom inn á sem varamaður sjö mínútum fyrir jöfnunarmarkið og spilaði því tæpan hálftíma.

Orri fékk mjög gott færi á 83. mínútu en hitti ekki markið úr dauðafæri. Hann átti að gera betur þar. Fékk sendingu frá hægri og var á undan varnarmanni UNited í boltann en hitti bara ekki markið af markteignum.

Orri fékk líka annað tækifæri í uppbótatima, var í þröngu færi en Andre Onana náði að verja frá honum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira