Skoðun

Björn Þor­steins­son smell­passar í starf rektors

Haraldur Ólafsson skrifar

Sá sem þetta skrifar hefur fylgst með Birni Þorsteinssyni í nokkra áratugi og er ljúft að nefna nokkur atriði sem skipta máli í komandi rektorskjöri, en hafa farið mishátt.

Björn fer ekki fram með látum, heldur yfirvegun. Hann hefur þann háttinn á að kynna sér mál vandlega áður en hann tekur nokkra afstöðu, en er þó er manna síst líklegur til að týnast í flækjum eða orðaflaumi. Björn er mjög greindur og skýr mannvinur sem heldur áttum og ratar að réttum og góðum markmiðum þótt skyggnið kunni að versna um hríð.

Björn gerir sér glögga grein fyrir hlutverki háskóla, sem er í senn að afla nýrrar þekkingar sem stenst ströngustu kröfur, að þjálfa nemendur fyrir krefjandi störf utan skólans, en ekki síður að varða leið til farsæls og góðs samfélags. Björn hefur sjálfur lyft grettistaki á þessum sviðum og það er sérstaklega eftir því tekið að hann hefur lagt mikla rækt við að tala inn í samfélagið og sinna í verki rækt við íslenska tungu. Björn er afbragðsgóð fyrirmynd að öllu leyti, sem mikilvægt er að rektor sé.

Björn valdi sér farveg innan hugvísinda, en enginn vafi er á að hann hefði ekki notið sín síður á öðrum sviðum háskólans. Hann hefur á þeim þann áhuga að það er honum í lófa lagið að kynna sér vandlega alla starfsemi háskólans, að því marki sem hann hefur ekki þegar gert. Það er öllum stjórnendum mikilvægt og það veit Björn. Það á ekki síst við um raunvísindi, en þangað mun hugur Björns hafa stefnt á yngri árum.

Það er fallega gert af Birni að gefa kost á sér til rektors og hann hefur allt til að bera sem þarf til að sinna því starfi með miklum sóma, bæði út á við sem inn á við.

Höfundur er prófessor í raunvísindadeild Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×