Skoðun

Magnús Karl er ein­stakur kennari og verður af­burða rektor

Kristín Heimisdóttir skrifar

Rektorskjör er framundan í Háskóla Íslands. Í framboði er Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild. Hluti af starfi hans sem prófessor er að sinna kennslu í lyfjafræði á þriðja ári í tannlæknisfræði og hefur hann fyrir löngu stimplað sig inn sem einn vinsælasti kennari deildarinnar. Það er því ekki víst að allir nemendur tannlæknadeildar fagni þessu framboði, enda skiljanlegt að vilja ekki missa hann úr kennslu við deildina. En stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Hann skilur vel hvað þarf til að geta helgað sig námi í háskóla að fullu og er tilbúinn að styðja nemendur í baráttu sinni fyrir bættu starfsumhverfi.

Magnús hefur ekki bara einstaka hæfileika til að umgangast ungt fólk af virðingu og væntumþykju í kennslu, heldur er hann jafnframt afbragðs vísindamaður og hefur djúpan skilning og sterka sýn í heimi vísindanna. Hann veit hvar skórinn kreppir og talar opinskátt um leiðir til úrbóta. Aukin nýsköpun og samkeppnishæfur háskóli í alþjóðlegu samhengi er þar efst á blaði.

En fyrst og fremst er Magnús mannvinur og maður samkenndar. Ég er ekki viss um hægt sé að meta áhrif þess, er hann stóð þétt að baki eiginkonu sinni, þegar hún greindi opinberlega frá alvarlegum veikindum sínum. Það þarf hugrekki og þor til að stíga fram á fjölmennu málþingi og greina alþjóð frá þeim dómsdegi sem var í nánd. Í öllu því ferli kom glöggt í ljós hve traustur og hlýr Magnús er. Að búa yfir slíkri reynslu, að geta talað opinskátt um lífið eins og það er á einlægan hátt og halda alltaf áfram með markmiðin á hreinu, er okkur hinum til eftirbreytni.

Þess vegna mun ég ekki hika við að kjósa Magnús Karl Magnússon sem næsta rektor við Háskóla Íslands. Ég veit að hann mun hafa markmiðin á hreinu og halda öllum ráðamönnum rækilega við efnið, verði hann kjörinn.

Höfundur er lektor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands




Skoðun

Sjá meira


×