Viðskipti innlent

Verka­fólk snýr aftur til vinnu hjá Bakka­vör

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru stórir eigendur í Bakkavör.
Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru stórir eigendur í Bakkavör.

Starfsmenn í verksmiðju matvælafyrirtækisins Bakkavarar í Spalding á Englandi eru snúnir aftur til vinnu eftir sex mánaða verkfall. Starfsfólkið féllst að lokum á tilboð sem það hafnaði í október í fyrra.

Tilboðið hljóðaði upp á 7,8 prósent launahækkun hjá þeim lægst launuðu og 6,4 prósenta hækkun hjá öðru starfsfólki. Þá fengu starfsmenn eingreiðslu upp á 350 pund eða rúmlega sextíu þúsund krónur.

Um fjögur hundruð manns voru í verkfalli sem svarar til um þriðjungs af starfsliðinu í verksmiðju Bakkavarar í Spalding. Fulltrúi Bakkavarar fagnar því að starfsfólkið hafi samþykkt lokatilboð Bakkavarar sem lagt var fram í október í fyrra.

Fulltrúar Unite verkalýðsfélagsins og starfsfólk komu til Íslands í nóvember til að vekja athygli á verkfallsaðgerðum. Fulltrúar verkalýðsfélagsins bönkuðu upp á á skrifstofum Bakkabræðra hér á landi en tilgangurinn var að afhenda bréf með ákalli til bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssonar um að koma til móts við kröfur verkafólksins.

Bræðurnir, ásamt Sigurði Valtýssyni, fara með rúmlega 50% hlut í Bakkavör. Fyrirtækið skilaði miklum hagnaði á síðasta ári og segir verkalýðsfélagið að 2% hagnaðarins dyggði til að mæta launakröfum starfsfólksins.

Starfsfólkið vinnur að mestu við að smyrja samlokur og útbúa annan tilbúinn mat sem seldur er í stærstu verslunarkeðjum Bretlands.

„Laun fólksins hafa lækkað um 10,6% af raunvirði á síðustu 3 árum og hluti fjölskyldnanna sem treysta á þessi störf ná ekki endum saman hver mánaðamót og þurfa að treysta á matargjafir. Forstjóri Bakkavarar var með 425 milljónir í laun á síðasta ári eða 100 sinnum hærri laun en fólkið í verksmiðjunni. Bakkavör er einn stærsti matvælaframleiðandi Bretlands og framleiðir fyrir m.a. Tesco, M&S og Sainsbury's. Samanlagðar arðgreiðslur til eigenda Bakkavarar nema 28 milljörðum íslenska króna á síðustu 5 árum,“ sagði í tilkynningu Unite í nóvember.

Bakkavör hafnaði fullyrðingum um launalækkun og sagði í tilkynningu að á árunum þremur hefði neysluvísitalan í Bretlandi hækkað um 21 prósent á sama tíma og lægstu laun í Spalding hafi hækkað um 22,8 prósent og öll önnur laun um 21,2% - hvoru tveggja yfir verðbólgu tímabilsins. Þar fyrir utan hafi ýmis hlunnindi verið bætt yfir sama tímabil.


Tengdar fréttir

Hafna ásökunum um smánar­laun

Talsmenn Bakkavarar hafna alfarið ásökunum um greiðslu sultarlauna til starfsfólks verksmiðju í Englandi, en fulltrúar ensks stéttarfélags komu hingað til lands í vikunni og hófu herferð gegn íslenskum meirihlutaeigendum fyrirtækisins.

Smána Bakkavararbræður fyrir greiðslu „fátæktarlauna“

Nokkrir fulltrúar um 700 starfsmanna í samlokuverksmiðju fyrirtækisins Bakkavarar í Bretlandi, sem er í meirihlutaeigu íslenskra fjárfesta, komu til Íslands í gær til að reyna að ná tali af Bakkabræðrum, þeim Lýði Guðmundssyni og Ágústi Guðmundssyni. Forsvarsfólk Bakkavarar segist hugsa vel um fólkið sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×