Í færslu rifjar Svava Kristín upp tímann sem hún starfaði hjá Sýn og segist kveðja vinnustaðinn og samstarfsfélaga með miklum söknuði. Hún líkir skrifunum við minningargrein.
„Ég er svo sorgmædd en á sama tíma svo þakklát fyrir allan þennan tíma á Stöð 2. Þetta var drauma vinnan mín en í dag er ég að sinna drauma hlutverkinu, að vera mamma, einstæð móðir í Reykjavík með ekkert leikskólapláss og allt baklandið í Vestmannaeyjum. Það þýðir bara eitt, ég er á leiðinni heim,“ skrifar Svava.
Svava deilir fasteigninni á Facebook og segist helst vilja flytja íbúðina með sér til Vestmannaeyja.
Umrædd eign er 169 fermetrar að stærð á fyrstu hæð í snyrtilegu fjölbýlishúsi sem var byggt árið 1960.
Stofa og borðastofa flæða saman í opið og bjart rými með stórum gluggum. Þaðan er útgengt á góðar svalir til vesturs. Eldhúsið er opið við stofu, prýtt stílhreinni svartri háglans innréttingu með góðu skápaplássi og flísum á veggjum. Samtals eru fimm svefnherbergi og eitt baðherbergi.
Ásett verð fyrir íbúðina er 110 milljónir.
Nánari upplýsingar á fasteignavef Vísis.






