Skoðun

Hafðu á­hrif til há­degis

Bjarni Þór Sigurðsson skrifar

Kosningu í VR lýkur á hádegi!

Kæru félagar,

Tíminn líður hratt – nú er síðasti séns til að hafa áhrif! Kosningu í formanns- og stjórnarkosningum VR lýkur á hádegi í dag, og ég hvet ykkur eindregið til að nýta kosningaréttinn. Þátttaka okkar í þessum kosningum skiptir sköpum fyrir framtíð félagsins og þau kjör sem við viljum tryggja fyrir félagsfólk

Það er ljóst að VR er ekki bara stéttarfélag – það er samfélag fólks með skýra sýn og sterka framtíðarsýn. Með þann mannauð sem VR býr yfir er framtíðin björt! Við stöndum saman sem félag og snúum bökum saman til að tryggja sanngjörn laun, betri vinnuaðstæður og öfluga hagsmunabaráttu fyrir félagsmenn.

Ég gef kost á mér sem formaður VR af þeirri ástæðu að ég vil sjá félagið vinna enn betur að hagsmunum félagsmanna. Við eigum að krefjast sanngjarnra launa, betri vinnuaðstæðna og sterkara félags sem stendur þétt með félagsfólki í baráttunni fyrir réttindum þess.

Framtíð vinnumarkaðarins er að breytast hratt, og við verðum að bregðast við. Ég vil berjast gegn aldursfordómum, tryggja félagsmönnum öryggi í þeirri hröðu þróun sem fylgir gervigreind, efla sí- og endurmenntun svo fólk geti aðlagað sig breyttum aðstæðum og stuðla að réttlátari húsnæðismarkaði þar sem félagsmenn geta eignast eða leigt á sanngjörnum kjörum.

VR þarf að vera öflugt afl í kjarabaráttunni, sem talar skýrt og af festu fyrir félagsfólk – ekki bara í orði, heldur líka á borði. Ég vil tryggja að rödd félagsmanna fái meira vægi, að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni okkar í fyrirrúmi og að við nýtum styrk okkar sem stærsta stéttarfélag landsins til að ná raunverulegum árangri.

Nú er tækifærið til að hafa áhrif! Það tekur aðeins örfáar mínútur að kjósa, en það getur skipt sköpum fyrir framtíð félagsins. Smelltu hértil að kjósa fyrir hádegi í dag, þitt atkvæði skiptir máli!

Höfundur er formannsframbjóðandi.




Skoðun

Sjá meira


×