Skoðun

Ég styð Ingi­björgu Gunnars­dóttur í stöðu rektors við Há­skóla Ís­lands

Herdís Sveinsdóttir skrifar

Störf Ingibjargar á ýmsum vettvangi endurspegla að þar er á ferð öflug manneskja.

Hún er afreksmanneskja í íþróttum en meðal eiginleika afburðaíþróttafólks er skýr markmiðasetning, einbeiting, samskiptahæfni, þrautseigja og sjálfsagi. Eiginleikar sem eru sameiginlegir þeim sem vilja ná afburðaárangri á hvaða vettvangi sem er. Þeir eiginleikar hafa greinilega nýst henni í vísindum því eins og sjá má á heimasíðu hennar framboðs er hún meðal fremstu vísindamanna skólans og með sambönd út um allan heim (https://ingibjorg.hi.is/). Þá þekkir hún flókna innviði háskólans vel eftir störf sín sem sviðsforseti, deildarforseti og aðstoðarrektor vísinda. Stjórnunar- og vísindareynsla Ingibjargar eru tvær ástæður þess að ég gef henni mitt atkvæði. Aðrar ástæður eru afstaða hennar til nemenda, sem grunneiningar háskólans, og afstaða hennar til fjármögnunar skólans og lesa má um á heimasíðunni. Það er grundvallarafstaða mín eftir að hafa starfað í 38 ár við Háskóla Íslands að frumskylda okkar er að standa vörð um öflugt nám á öllum skólastigum í öllum námsgreinum sem kenndar eru við skólann. Fjármögnun skólans endurspeglar hins vegar ekki að þetta sé viðhorf þeirra sem útdeila fjármagninu. Það er almenn vitneskja að háskólarnir eru undir fjármagnaðir. En eitt er að vera undir fjármagnaður, annað að útdeila ekki réttlátlega því fjármagni sem til staðar er til mismunandi námsleiða. Þar vísa ég í reikniflokka námsleiða en ég á erfitt með að sætta mig við það óréttlæti sem felst í röðun námsleiða í reikniflokka. Röðunin er ógegnsæ en allir sjá þó að flokkun námsleiða felur í sér að í námsleiðum sem flokkast í hæsta flokk er að finna „fyrirlestranámskeið” sem fá tvöfalda greiðslu miðað við „fyrirlestranámskeið” í námsleið sem flokkast í lægsta flokk. Niðurstaðan er að nemendur og nám þeirra líða fyrir þessa flokkun og það er óásættanlegt. Þar sem Ingibjörg hefur sýnt fram á getu sína til afreka þá treysti ég henni til að leiðrétta þetta óréttlæti nemendum skólans til hagsbóta.

Af öllu ofan töldu er það mat mitt að Ingibjörg sé kjörin til að gegna stöðu rektors Háskóla Íslands. Svo má bæta við að hún er einfaldlega öflugasti frambjóðandinn líkt og heimasíða hennar ber glöggt vitni um.

Höfundur er prófessor Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×