Körfubolti

Martin og fé­lagar flottir í Euroleague í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Martin Hermannsson í leik með Alba Berlin í EuroLeague deildinni.
 Martin Hermannsson í leik með Alba Berlin í EuroLeague deildinni. Getty/ Ahmet Ozkan

Martin Hermannsson og félagar í þýska Alba Berlin hafa ekki unnið marga sigra í Euroleague deildinni í körfubolta í vetur en þeir unnu flottan sigur í kvöld.

Alba vann þá sjö stiga sigur á spænska liðinu Baskonia Vitoria-Gasteiz, 97-90.

Martin var með þrettán stig og fimm stoðsendingar í leiknum þrátt fyrir að spila bara í nítján mínútur. Hann hitti úr sex af ellefu skotum sínum í leiknum.

Alba var fjórum stigum yfir í hálfleik, 50-46, eftir að hafa unnið bæði fyrsta leikhluta (26-24) og annan leikhluta (24-22). Liðið byggði ofan á þetta í seinni hálfleik og landaði mjög góðum heimasigri.

Alba endaði með þessu fjögurra leikja taphrinu sína í Euroleague en liðið hefur unnið fimm af 29 leikjum sínum í deildinni í vetur.

Baskonia var með átta fleiri sigra en Alba fyrir leikinn og fjórum sætum ofar í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×