Handbolti

ÍR-konur upp fyrir Sel­foss eftir sigur á Sel­fossi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásthildur Bertha Bjarkadóttir skoraði sigurmark ÍR liðins á Selfossi.
Ásthildur Bertha Bjarkadóttir skoraði sigurmark ÍR liðins á Selfossi. Vísir/Diego

ÍR er komið upp í fjórða sæti í Olís deild kvenna í handbolta eftir sigur á Selfossi í dag.

ÍR vann eins marks sigur, 20-19, og hafði fyrir vikið sætaskipti við heimakonur í Selfossliðinu.

Ásthildur Bertha Bjarkadóttir skoraði sigurmarkið úr hraðaupphlaupi eftir að Selfoss hafði unnið upp tveggja marka forskot gestanna á lokamínútunum.

ÍR var þremur mörkum yfir í hálfleik, 13-10, og komst fjórum mörkum yfir í upphafi þess seinni. Selfoss vann sig inn í leikinn og fékk lokasókn leiksins til að jafna.

Á meðan ÍR liðið hefur unnið þrjá leiki í röð þá hafa Selfosskonur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fimm deildarleikjum sínum. Fyrir vikið eru ÍR-konur komnar upp fyrir þær í töflunni.

Katrín Tinna Jensdóttir skoraði fimm mörk fyrir ÍR og Sara Dögg Hjaltadóttir, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir, Dagmar Guðrún Pálsdóttir og Sylvía Sigríður Jónsdóttir voru allar með þrjú mörk.

Ingunn María Brynjarsdóttir varði líka mjög vel í markinu en hún var með fimmtán varin skot og 44 prósent markvörslu.

Perla Ruth Albertsdóttir nýtti öll átta skotin sín í leiknum en það dugði ekki til. Harpa Valey Gylfadóttir skoraði fimm mörk og Katla María Magnúsdóttir var með þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×