Fótbolti

Al­veg hættur í fýlu við Heimi

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Matt Doherty voru báðir kampakátir í Búlgaríu í gær þar sem Írar unnu 2-1 sigur.
Heimir Hallgrímsson og Matt Doherty voru báðir kampakátir í Búlgaríu í gær þar sem Írar unnu 2-1 sigur. Samsett/Getty

Matt Doherty, leikmaður Wolves, kveðst búinn að ná sáttum við Heimi Hallgrímsson eftir að hafa fundist Eyjamaðurinn sýna sér vanvirðingu í haust.

Heimir sleppti því að velja Doherty í írska landsliðshópinn fyrir tvo leiki í október, þegar Írinn hafði ekki verið að spila með Wolves, og það fór illa í þennan 33 ára varnarmann sem lét óánægju sína í ljós í fjölmiðlum.

Doherty var svo valinn seint í leik í nóvember en er í hópnum sem nú tekst á við Búlgaríu í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar, eftir að hafa átt fast sæti í liði Wolves að undanförnu.

„Augljóslega voru hnökrar hjá okkur í byrjun“

Og Doherty skoraði í góðum 2-1 útisigri Írlands í gærkvöld sem þýðir að Írar eru í góðri stöðu fyrir seinni leikinn í Dublin á sunnudag. Eftir leik var Doherty hress og sagði sambandið við Heimi orðið gott.

„Í augnablikinu er allt í góðu. Samband okkar er gott. Augljóslega þá voru hnökrar hjá okkur í byrjun sambandsins en það virðist allt í góðu núna. Við erum báðir yfirvegaðir og njótum þess að vera saman,“ sagði Doherty við RTÉ Sport.

Hrósaði Doherty í hástert

Heimir talaði svo um Doherty á blaðamannafundi og hrósaði honum í hástert.

„Þetta var heilt yfir góð frammistaða í dag. Ég myndi segja að Matt Doherty hafi átt virkilega góðan leik, auk þess að skora eftir stórkostlegt hlaup og mjög hugrakkan skalla,“ sagði Heimir.

„Hann átti líka stóran þátt í fyrra markinu okkar, fljótur að hugsa og með snögga sendingu á Robbie Brady fyrir fyrirgjöfina,“ sagði Heimir og kvaðst vona að Doherty myndi svo spila sinn 50. landsleik á Írlandi á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×