Fjöldskylda hans greindi frá andláti hans á samfélagsmiðlum.

Þekktasti bardagi Foreman var án efa bardagi hans gegn Muhammad Ali í Austur Kongó, sem þá hét Zaír, árið 1974.
Bardaginn var markaðsettur sem Rumble in the Jungle og hefur gengið undir því nafni síðan, en Ali bar sigur úr býtum eftir rothögg í áttundu lotu. Þar með tapaði Foreman þungarvigtartitlinum.

Í kjölfar þess bardaga barðist Foreman nokkrum sinnum, og sigraði meðal annars Joe Frazier og Ron Lyle.
En árið 1977, þegar Foreman var einungis 28 ára gamall, tilkynnti hann að hann væri hættur í hnefaleikum. Hann starfaði sem trúboði í Texas, heimaríki hans, í tíu ár þar á eftir.
Hann sneri þó aftur árið 1987, 38 ára gamall, og vann að einni stærstu endurkomu íþróttasögunnar. Árið 1991 laut hann í lægra haldi, þó naumt væri, gegn Evander Holyfield þar sem þungavigtartitillinn var í boði.
Tveimur árum seinna tókst honum þó ætlunarverkið. Þá sigraði Foreman Michael Moorer með rothöggi í tíundu lotu og varð þungavigtarmeistari á ný, 45 ára og 299 daga gamall.

Þetta sama ár, 1993, kom hann að framleiðslu einskonar samlokugrills sem heitir í höfuðið á honum, George Foreman-grillið. Þessi vara naut gríðarlegra vinsælda og mun hafa selst í hundrað milljónum eintaka um allan heim. Árið 1999 seldi Foreman sinn hlut, fyrir 138 milljónir Bandaríkjadali.
Síðasti bardagi Foreman var gegn Shannon Briggs árið 1997 þar sem hann tapaði. Hann átti þó farsælan sjónvarpsferil þar í kjölfarið.
