Skoðun

Keppnis­maðurinn Magnús Karl Magnús­son

Bjarni Elvar Pjétursson skrifar

Í vikunni kýs starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands rektor til að leiða skólann næstu fimm árin. Eftir að kosið hefur verið á milli fimm hæfra frambjóðenda standa tveir ólíkir kandidatar eftir.

Annan þeirra hef ég þekkt í meira en hálfa öld og farið með honum í gegn um barnaskóla, grunnskóla, menntaskóla og svo enduðum við saman í numerus clausus prófunum í lækna-og tannlæknadeild. Eftir framhaldsnám lágu leiðir okkar saman aftur á vettvangi Háskólans þegar Magnús Karl var deildarforseti Læknadeildar og undirritaður deildarforseti Tannlæknadeildar. Það samstarf varð því miður styttra en til stóð því Magnús Karl ákvað að hætta sem deildarforseti Læknadeildar og draga úr sinni akademísku virkni þegar Ellý kona hans greindist með Alzheimer. Fyrir hann var það mjög mikilvægt að þau næðu nokkrum góðum árum saman áður en þessi hræðilegi sjúkdómur ágerðist.

Þeir sem hafa kynnt sér Magnús Karl og hans störf vita vel að hann er mikilsvirtur vísindamaður og að rannsóknir hans hafa haft áhrif í læknisfræði nútímans. Magnús hefur séð um lyfjafræðikennslu í Tannlæknadeild í mörg ár. Það var mjög gaman fyrir mig að heyra frá tannlæknanemum að hann væri frábær kennari og í raun einn besti kennari sem þau hefðu haft á sinni löngu skólagöngu. Hann er einn af þeim kennurum sem brenna virkilega fyrir efninu og leggja sig fram um að koma því til skila á sem áhugaverðastan hátt.

En það vita það ekki allir að Magnús Karl er líka keppnismaður. Sem krakkar vorum við vinirnir alltaf að keppa í einhverju, vorum saman fótbolta, blaki og fleiri íþróttum. Hápunktur íþróttaferils okkar Magnúsar var þegar við spiluðum fyrir Íslands hönd í ungmennalandsliðinu í blaki. Strax á unga aldri var Magnús Karl meiri hugsuður en við félagarnir og okkur fannst hann stundum hálfgerður „prófessor.“ En það kom yfirleitt í bakið á okkur að vanmeta Magnús Karl því hann er gríðarlegur keppnismaður og var okkur fremri í flestri keppni. Þetta virðist ekkert hafa breyst því hann setur sér markmið og framkvæmir þau. Hvort sem það snýst um að hlaupa maraþon á „gamals“ aldri eða berjast fyrir Háskóla Íslands.

Þess vegna styð ég keppnismanninn Magnús Karl Magnússon sem næsta rektor Háskóla Íslands.

Höfundur er prófessor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×