Skoðun

Ó­þolandi á­stand

Sigurjón Þórðarson skrifar

Nýlega fjallaði ég um þann mikla mun sem greiddur er fyrir uppsjávarfisk m.a. kolmunna, loðnu og makríl sem veiddur er á sömu slóðum á sama tíma, sem seldur er til tengdra aðila á Íslandi annars vegar og hins vegar í Færeyjum. Þetta lága verð hér á landi hefur bein áhrif á laun sjómanna, veiðigjöldin, hafnargjöld og útsvar sveitarfélaga svo eitthvað sé tínt til.

Það er ekki aðeins gríðarlegur munur á verðlagningu á sambærilegum fiski á milli Íslands og næstu nágranna.

Á meðfylgjandi mynd sést munurinn á verði á óslægðum þorski á frjálsum markaði á grænu línunni og verð á sama fiski í föstum viðskiptum tengdra aðila, eða á Verðalgsstofuverði dagana 5. til 18. febrúar sl á línunni þar fyrir neðan. Þetta eru sláandi tölur, en mesti verðmunur á sambærilega stórum þorski var nálægt 350 kr. Fyrir kílóið og mesti hlutfallslegi munur var 42 prósent.

Þetta má útleggja sem afslátt sem fiskvinnsla sem samþætt er útgerð fær frá raunvirði hráefnis á markaði. Að auki má túlka ívilnandi vigtarreglu sem sérstakan ríkisstuðning við viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki umfram önnur. Ég tel þetta fyrirkomulag einn veigamesta þáttinn í samþjöppun í sjávarútvegi. Það er ekki rétt gefið fyrir þá fiskvinnslu sem ekki er tengd veiðum og sama má segja um minni útgerðir sem ekki reka fiskvinnslu en þau útgerðarfyrirtæki þurfa að greiða hærri laun og hærri hafnargjöld af raunvirði aflans.

Núverandi ástand er óþolandi fyrir þjóðina sem eiganda auðlindarinnar og sjómenn. Samkeppnisstaða í greininni er rammskökk. Þeir sem reyna að réttlæta núverandi ástand halda því gjarnan fram að verð á frjálsum markaði endurspegli miklu frekar hátt jaðarverð sem myndi snarlækka ef meira magn færi á frjálsan markað á Íslandi.

Það er auðvitað af og frá að þannig yrði það nema um skamman tíma, þar sem verðið ræðst af því þegar til lengdar lætur sem erlendir markaðir gefa í aðra hönd.

Það er ekkert séríslenskt fiskverð til, þar sem aflinn er fluttur út að stærstum hluta á erlenda markaði.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×