Efling og SVEIT, samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, hafa eldað grátt silfur saman undanfarin misseri í tengslum við Virðingu sem Efling heldur fram að sé ekki raunverulegt stéttarfélag heldur framlenging á hagsmunum veitingahúsaeigenda.
Rúmlega fjörutíu þúsund krónum munur á launum almennra veitingahúsastarfsmanna eftir því hvort þeir fá greitt eftir kjarasamningi Virðingar og SVEIT annars vegar og Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar. Munurinn verður rúmlega 45 þúsund krónur þegar nýr launataxti tekur gildi fyrir eflingarfólks um mánaðamótin samkvæmt tölum sem Efling hefur tekið saman.
Virðingarsamningurinn feli í sér umtalsvert lakari launakjör fyrir þorra veitingahúsastarfsfólks þrátt fyrir að dagvinnutaxti sé lítillega hærri en í kjarasamningi Eflingar. Ástæðan sé sú að samkvæmt samningi Virðingar sé dagvinnutími lengdur um þrjár klukkustundir á hverjum degi. Þannig sé greitt fyrir dagvinnu á milli klukkan 17:00 og 20:00 eftir samningi Virðingar en yfirvinna eftir samningi Eflingar. Þá sé álagsprósenta fyrir kvöld- og helgarvinnu lægri hjá Virðingu en Eflingu.
Heldur Efling því enn fram að kjarasamningur Virðingar og SVEIT sé ólöglegur þar sem hann feli í sér ólögmætt samráð atvinnurekenda um kaup og kjör starfsmanna sinna. Efling, Alþýðusamband Íslands og Starfsgreinasambandið kvörtuðu undan samráðinu til Samkeppniseftirlitsins fyrr í þessum mánuði.