Innlent

Ekkert bendi til að vatnið sé óneyslu­hæft

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Enn er beðið niðurstaðna úr fleiri sýnatökum.
Enn er beðið niðurstaðna úr fleiri sýnatökum. Vísir/Vilhelm

Sýnataka af neysluvatni í Hveragerði hefur ekki leitt í ljós að það sé óneysluhæft. Ábendingar höfðu borist heilbrigðiseftirlitinu um að bragð og lykt af vatninu væru ekki sem skyldi. Málið er enn til rannsóknar. 

Í gær var greint frá því að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands rannsakaði neysluvatn í Hveragerði eftir að ábendingar bárust um að skrýtin lykt og bragð væri af vatninu. Unnið væri að sýnatökum, hverra niðurstöðu væri að vænta í dag. 

Samkvæmt tilkynningu á vef sveitarfélagsins hafa fjölmörg sýni verið tekin á svæðinu og benda fyrstu upplýsingar frá heilbrigðiseftirlitinu ekki til þess að vatnið sé óneysluhæft út frá gerlafræðilegum viðmiðum. Beðið sé eftir niðurstöðum eða fyrstu vísbendingum úr öðrum sýnum, sem birtar verði á heimasíðu Hveragerðis. 

„Lykt af vatninu er staðfest af heilbrigðiseftirlitinu. Þá mælist lækkað ph gildi í vatninu, innan marka, en það gefur ríkt tilefni til að rannsaka málið þar til orsökin er ljós. Það er í algjörum forgangi.

Unnið er öllum höndum að málinu með starfsfólki bæjarins og fjölmörgum fagaðilum að greina betur orsökina og málið upplýst eftir því sem framvindan skýrist. Við munum greina frá niðurstöðum um og leið og þær berast hér á vefnum.

Eins og staðan er í dag benda fyrstu frumniðurstöður ekki til að vatnið sé óhæft til neyslu í Hveragerði,“ segir í tilkynningunni, sem Pétur G. Markan bæjarstjóri skrifar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×