Arnór samdi við Malmö í Svíþjóð á dögunum en hafði áður leikið við Norrköping í sænsku deildinni við góðan orðstír. Það fór fyrir brjóstið á einhverjum stuðningsmanna síðarnefnda liðsins þegar Arnór samdi við Malmö og greindi Arnór frá því í viðtali við Aftonbladet í gær að hann hafi ljót skilaboð sem beindust að fjölskyldu hans.
„Sem fótboltamaður færðu allskonar skilaboð og þau eru misalvarleg og misljót. En þegar fjölskyldan er komin inn í þetta finnst manni þetta vera aðeins of mikið. Þau fengu engin skilaboð, að ég held. Þetta er bara til mín og hótanir um að skaða fjölskylduna. Þetta var alveg ljótt,“ segir Arnór í Sportpakkanum á Stöð 2.
Til skoðunar að fara með málið lengra
Aðspurður hvort tilkynna eigi málið til lögreglu segir Arnór að það sé til skoðunar og hann meti stöðuna ásamt forráðamönnum hjá félagi sínu, Malmö.
„Ég ræddi aðeins við þá í Mlamö hvernig væri best að gera þetta. Það var ekkert rosa mikið af þessum ljótustu skilaboðum. Þessu var meira beint að mér. Við erum að skoða hvort þetta verði tekið eitthvað lengra eða ekki,“ segir Arnór.
Arnór segist hafa búist við einhverjum viðbrögðum frá stuðningsmönnum en segir þessi viðbrögð koma frá skemmdum eplum.
„Auðvitað býst maður við því að það yrðu einhverskonar viðbrögð frá Norrköping. En á sama tíma vill maður ekki lita alla stuðnignsmenn Norrköping. Þetta eru náttúrulega bara einhverjir ákveðnir einstaklingar. Ég fæ líka mörg falleg skilaboð frá þei msem skilja þessa ákvörðun en svo eru einhberjir sem líður aðeins verr sem henda í þetta,“ segur Arnór.
Á góðum stað og hlakkar til
Arnór hefur náð sér af meiðslum sem höfðu hrjáð hann um hríð, og héldu honum meðal annars frá landsleikjum Íslands við Kósovó á dögunum. Hann stefnir á að spila með Malmö í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar um helgina.
„Maður finnur það strax að þetta er risaklúbbur. Pressan og viljinn að gera vel - ég hef aldrei séð svona áður. Ég er mjög spenntur að vera hluti af svoleiðis liði sem á að vinna deildina og bikarinn. Það er bara geggjað,“ segir Arnór sem hefur leik gegn Djurgården á laugardag.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.