Upp­gjörið: Grótta - Valur 19-30 | Meistararnir eru deildarmeistarar

Kári Mímisson skrifar
481081748_10162387085049035_161324891871384269_n
VÍSIR/VILHELM

Íslandsmeistarar Vals eru deildarmeistarar Olís deildar kvenna annað árið í röð eftir 19-30 sigur gegn Gróttu í næstsíðustu umferðinni. Grótta er í neðsta sæti deildarinnar en getur enn bjargað sér frá falli, ef ÍBV tapar í lokaumferðinni. 

Leikurinn fór vel af stað hér í kvöld og jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútunum en það varði þó ekki lengi. Íslandsmeistarar Vals sýndu sig og sönnuðu heldur betur þegar þær breyttu stöðunni úr 3-3 yfir í 4-10 á mjög skömmum tíma um miðbik fyrri hálfleiks. Gróttustelpur reyndu allt hvað þær gátu til að halda í við gestina en tókst ekki að ráð við feikisterka vörn Vals með Hafdísi Renötudóttur í miklum ham fyrir aftan hana. Staðan í hálfleik 8-17 fyrir Val og fátt sem virtist geta stöðvað það að liðið yrði deildarmeistarar. Valskonur héldu uppteknum hætti í upphafi seinni hálfleiks og náðu mest 16 marka forystu 11-27. Það hjálpaði svo ekki heimakonum þegar Katrín Helga Sigurbergsdóttir fékk sína þriðju brottvísun og lék hún því ekki meira með liðinu það sem eftir lifði leiks.

Undir lokin þá slökuðu þó Valskonur aðeins á og Grótta náði aðeins að klóra í bakkann. Lokatölur eins og áður segir 19-30 fyrir Val sem er deildarmeistari árið 2025. Valskonur þurfa samt að velja sér annað kvöld til að fagna þessum titli því framundan er risaleikur gegn MSK Iuventa Michalovce frá Slóvakíu í undanúrslitum Evrópubikarsins á sunnudaginn. Liðið tapaði með tveimur mörkum fyrri leiknum úti svo það verður að segjast að möguleikar liðsins eru ansi góðir fyrir seinni leikinn sem hefst klukkan 17:30 í N1-höllinni.

Atvik leiksins

Atvik leiksins verður að vera lokaflautið og fögnuður Valskvenna. Liðið er auðvitað búið að vera frábært það sem af er vetri og er virkilega vel að titlinum komnar. Frammistaðan var virkilega fagleg hér í kvöld og sjálfstraustið gjörsamlega skein af hverjum leikmanni liðsins.

Stjörnur og skúrkar

Hafdís Renötudóttir fær útnefninguna maður leiksins. Hún varði 17 skot (60 prósent) og skoraði einnig tvö mörk, geri aðrir betur. Þær Lovísa Thompson og Þórey Anna Ásgeirsdóttir voru atkvæðamestar í liði Vals með sex mörk hvor en hjá Gróttu var það Katrín Scheving Thorsteinsson sem var markahæst með 7 mörk.

Dómararnir

Flott frammistaða hjá Eyþóri og Leó í dag. Vissulega ekki erfiður leikur að dæma en þeir voru með þetta í teskeið.

Stemning og umgjörð

Frábær stemning á Nesinu í dag og bara virkilega vel mætt. Auðvitað ekki á hverjum degi sem lið geta orðið deildarmeistarar svo það hefur nú verið ágætlega auðvelt að hvetja Valsara á þennan leik þó svo að félagið sé orðið ansi vant því að fagna titlum þá verður það aldrei þreytt. Heimamenn fjölmenntu líka en því miður fyrir þær gekk þetta ekki í kvöld og það er því næstum ljóst að liðið spilar ekki í Olís deildinni að ári.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira