Ræðuna hélt Pútín í Múrmansk í Rússlandi á alþjóðlegri ráðstefnu um Norðurslóðir.
Hann gagnrýndi Vesturlönd fyrir að taka skref átt að mögulegum átökum við Rússa og nefndi heræfingar sérstaklega. Margir hefðu slitið efnahagsleg tengsl við Rússland og samvinnu á sviðið vísinda, menntunar og menningar. Samvinna á norðurslóðum hefði beðið hnekki.
Sjá einnig: Saka Norðmenn um hervæðingu Svalbarða
Mörg ríki og Ísland þeirra á meðal, drógu úr samskiptum sínum við Rússland eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.
Pútín sagði að Rússar, sem væru stærsta veldið á norðurslóðum, myndu aldrei sætta sig við að brotið yrði á fullveldi þeirra. Hann sagði Rússa aldrei hafa ógnað neinum á norðurslóðum en til stæði að auka viðbragðsgetu þar og fara í hernaðaruppbyggingu og nútímavæðingu. Þar að auki ætti að bæta innviði á svæðinu, eins og flugvelli og hafnir, eins og fram kemur í frétt TASS fréttaveitunnar, sem rekin er af rússneska ríkinu.
Forsetinn ræddi einnig viðleitni kollega síns vestanhafs við að eignast Grænland og sagði að Donald Trump væri alvara. Pútín benti einnig á að Bandaríkjamenn hefðu lengi litið hýru auga til Grænlands.
Sjá einnig: „Við verðum að eignast þetta land“
Pútín sagði ljóst Bandaríkjamenn myndu halda áfram að vinna að því að koma höndum yfir Grænland.
Áhugasamir geta hlustað á ræðuna með túlk Sky News í spilaranum hér að neðan.
Stefna á mikla námuvinnslu
Samkvæmt Pútín stefna Rússar á umfangsmikla námuvinnslu á norðurslóðum á komandi árum og þá meðal annars á svokölluðum sjaldgæfum málmum. Þeir eru gífurlega mikilvægir við framleiðslu tæknibúnaðar og hergagna og spila sífellt stærri rullu á taflborðum stórvelda heimsins.
Einnig stendur til að byggja upp innviði fyrir aukna ferðaþjónustu á norðurslóðum.
Pútín sagði þó, samkvæmt RIA fréttaveitunni, sem er rekin af rússneska ríkinu, að mikilvægt væri að verja umhverfið á norðurslóðum, samhliða aukinni auðlindanotkun þar.
Skipasiglingum um svæðið hefur fjölgað mjög með undanhaldi íshellunnar í norðri og búast Rússar við að þeim muni fjölga enn meira á komandi árum. Pútín sagði Rússa þurfa að hugsa um hagsmuni sína aldir fram í tímann þegar kæmi að norðurslóðum og siglingum þar um.
Fara þyrfti í endurbætur á ísbrjótaflota Rússa og byggja flota fraktskipa sérstaklega fyrir flutninga á norðurslóðum og bæta hafnir þar.