Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu stjórnar Sameykis sem birt var á heimasíðu þeirra í dag. Mikið hefur verið rætt og ritað um starfslokasamning Þórarins Eyfjörð, fyrrverandi formanns félagsins, og stjórnar þess þegar í ljós kom í aðdraganda aðalfundar Sameykis sem fór fram í dag að Þórarinn héldi óbreyttum launum út kjörtímabilið sem nær til tveggja ára og hálfs sem nemur tæplega sjötíu milljón krónum.
Gagnrýnisraddir innan verkalýðshreyfingarinnar
Aðrir leiðtogar innan verkalýðshreyfingarinnar hafa gagnrýnt starfslokasamninginn harkalega í dag. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir sjálftöku Þórarins skefjalausa og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir ekkert eðlilegt við málalyktir.
„Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur gengið á ýmsu hjá félaginu síðustu misseri. Í byrjun október 2024 var ljóst að formaðurinn nyti ekki lengur trausts stjórnar og starfsfólks Sameykis né forystu BSRB og vék því úr stjórn. Það var hvorki einföld né auðveld ákvörðun en nauðsynleg til að tryggja starfsemi og hag félagsins,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Sameykis.
Þar kemur fram að samkvæmt lögum félagsins sé ekki hægt að segja félagslega kjörnum formanni upp störfum en að þegar ljóst hafi orðið að formaðurinn myndi ganga úr stjórn væru tvö og hálft ár eftir af kjörtímabili hans. Að fengnu lögfræðiáliti og með aðkomu sáttamiðlara hafi niðurstaðan verið sú að Þórarinn myndi halda óbreyttum launakjörum út kjörtímabilið, en þau eru ákvörðuð af launanefnd Sameykis.
Starfsemi félagsins verði gagnsærri
„Stjórn Sameykis vinnur nú að því að setja sér starfsreglur til að tryggja að svona aðstæður geti ekki komið aftur upp innan félagsins. Á sama tíma er nauðsynlegt að gera starfsemi þess gagnsærri en hingað til – meðal annars með því að birta fundargerðir stjórnar á vef þess,“ segir í yfirlýsingunni.
„Sameyki stendur á sterkum grunni og með samstöðu, virðingu og ábyrgð að leiðarljósi höldum við áfram að byggja upp öflugt félag sem berst fyrir hagsmunum félagsmanna.“