Skoðun

Sjálf­stæðir grunn­skólar í hættu

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Sjálfstætt starfandi grunnskólar eru veigamikill hluti íslensks skólakerfis. Hátt í 1.500 nemendur voru í sjálfstæðum grunnskólum á Íslandi árið 2023, hluti þeirra í alþjóðlegum deildum sem ekki eru í boði við aðra grunnskóla. Um þessar mundir hriktir í stoðum skólanna og ef fram fer sem horfir kann að verða úti um vinnustað fjölda nemenda og starfsfólks. Valkostum fækkar, það dregur úr fjölbreytni, samfélagið verður fátækara og síður bært til að mæta eftirspurn eftir alþjóðlegu grunnskólanámi.

Meðal sjálfstæðra grunnskóla eru Barnaskólar Hjallastefnunnar, Landakotsskóli, Skóli Ísaks Jónssonar, Tjarnarskóli, grunnskólinn NÚ í Hafnarfirði, Suðurhlíðarskóli, Alþjóðaskólnn á Íslandi, Waldorfskólann í Lækjarbotnum og Waldorfskólinn Sólstafir. Flestir skólanna starfa í Reykjavík.

Helsta áskorun sjálfstæðra skóla er fjármögnun skólastarfs. Hvað veldur?

Fjárhagslegar forsendur

Mikilvægt er að allir skilji að sjálfstæðir grunnskólar hér á landi eru ekki einkaskólar á borð við skóla sem eru t.d. reknir í Bandaríkjunum, Bretlandi eða Svíþjóð. Þeir eru ekki reknir í hagnaðarskyni og þeir safna ekki sjóðum. Margir þeirra eru reknir af félagasamtökum sjálfseignarstofnunum. Öllum skólunum er með lögum bannað að greiða arð til eigenda af fjárframlögum frá sveitarfélögum. Sagan sýnir að þá sjaldan að hagnaður myndast hjá einstökum skólum er hann nýttur til að mæta fyrri taprekstri og til innri fjárfestingar í skólastarfinu.

Rekstur sjálfstæðra grunnskóla er að mestu fjármagnaður með framlögum frá sveitarfélögum. Samkvæmt lögum veita sveitarfélög sjálfstæðum skólum framlög sem nema að lágmarki 70 eða 75% af meðaltalsrekstrarkostnaði allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu, á hvern nemanda, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Við útreikninginn eru teknir saman allir skólar, bæði stórir hagkvæmir skólar og smáir óhagkvæmari skólar. Greitt er samkvæmt þessu meðaltali allra skóla þrátt fyrir að sjálfstæðir grunnskólar séu flestir smáir.

Kostnaður sveitarfélaga á hvern nemanda

2.943.211 kr.

Framlag sveitarfélags til sjálfstæðs skóla með færri en 200 nemendur

2.207.408 kr.

Framlag sveitarfélags til sjálfstæðs grunnskóla með 200 nemendur eða fleiri

2.060.248 kr.

Þar sem þessari nálgun er beitt fylgja hlutfallslega færri krónur grunnskólabarni sem stundar nám í sjálfstætt reknum grunnskóla en barni sem stundar nám í skóla sveitarfélags. Til viðbótar sitja sjálfstæðir skólar uppi með virðisaukaskatt sem skólar sveitarfélaga fá endurgreiddan.

Geta þeir að fjármagnað sig sjálfir?

Sjálfstæðum grunnskólum er heimilt að innheimta skólagjöld. Eigi fjármögnun þeirra að ná jafnstöðu við fjármögnun meðaltalsgrunnskóla sveitarfélaganna vantar sjálfstæðu skólana á bilinu 735–882 þús. kr. upp á hvert ár á hvern nemanda. Það liggur hins vegar fyrir að heimildina til innheimtu skólagjalda hafa sjálfstæðir grunnskólar nýtt af mikilli varfærni. Ástæðan er fyrst og fremst sú að stjórnendur þeirra hafa lagt áherslu á að skólarnir séu valkostur fyrir alla en ekki fáa. Engin vilji ríkir hjá sjálfstæðum grunnskólum að á því verði breyting. Við þessu hafa sjálfstæðir grunnskólar alla tíð brugðist með áherslu á hagkvæmni í öllum rekstri. Fyrir vikið er hlutfall launakostnaðar mjög hátt í sjálfstæðum grunnskólum og þeir því mjög viðkvæmir fyrir breytingum samkvæmt kjarasamningum.

Margir hafa velt fyrir sér hvers vegna einstaklingar ráðast í stofnun og rekstur sjálfstæðra grunnskóla. Rekstur þeirra verður seint blómlegur og það þarf að leggja í stofnun þeirra fé sem litlar eða engar líkur eru á að fáist til baka. Stofnendur skólanna leggja fé, blóð, svita og tár og ferilinn að veði og gangast jafnvel undir persónulegar ábyrgðir til að tryggja rekstur sinna skóla. Þeir taka þannig áhættu sem sveitarfélögin losna undan. Í sumum tilvikum hafa stjórnendur tekist á hendur rekstur skólastarfs sem sveitarfélög hafa ekki áhuga á að taka að sér en hvetja samt til. Hér má t.d. nefna Landakotsskóla sem rekur alþjóðadeild og Alþjóðaskólann í Garðabæ. En ástæða þess að fólkið leggur þetta á sig er einföld. Sjálfstæðir grunnskólar eru reknir af hugsjónarfólki með ríkan vilja til að mæta þörfum skólabarna utan miðstýrðs fyrirkomulags um skólastarf sveitarfélaga.

Viðhorfsbreytingar er þörf

Sjálfstætt starfandi grunnskólar veita mikilvæga þjónustu sem samfélagið hvorki vill né getur farið á mis við. Mikilvægt er því að sveitarstjórnarfólk hafi hugfast að án þeirra verður flóknara að mæta þörfum skólabarna, innlendra sem erlendra, og foreldra þeirra.

Sumir stjórnmálamenn virðast líta á sjálfstæða grunnskóla sem afgangsstærð. Þeim væri hollt að hafa í huga að sú er ekki skoðum skólabarna, foreldra þeirra, stjórnenda og starfsfólks sjálfstæðra grunnskóla. Í þeirra huga eru skólarnir mikilvægur hluti lífsins sjálfs. Samfélaglegir hagsmunir krefjast þess að hlúð verði að skólunum með sanngjörnum hætti. Ef ekki er brugðist við nú að bæta úr stöðu sjálfstætt starfandi skóla, stöndum við frammi talsvert fátæklegra skólaumhverfi

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu




Skoðun

Sjá meira


×