Lífið

Átta ára sæmd heiðurs­merki fyrir að bjarga lífi móður sinnar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skátahöfðingi Íslands, Harpa Ósk Valgeirsdóttir, veitti Matthildi Guðrúnu Hlín Leifsdóttur hetjudáðamerkið við setningu Skátaþings.
Skátahöfðingi Íslands, Harpa Ósk Valgeirsdóttir, veitti Matthildi Guðrúnu Hlín Leifsdóttur hetjudáðamerkið við setningu Skátaþings.

Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, átta ára Heiðabúi, hlaut hetjudáðamerki Bandalags íslenskra skáta í dag fyrir að veita móður sinni lífsbjörg þegar kransæð rofnaði hjá henni.

Skátaþing var sett við hátíðlega athöfn í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði í dag. Skátafélagið Hraunbúar sem fagna 100 ára starfsafmæli í ár eru gestgjafar þingsins. Á setningunni voru veitt heiðursmerki og hlutu þrú hetjudáðamerki en þau eru veitt skátum sem hafa sýnt hetjudáð með einum eða öðrum hætti.

Jón Andri Helgason, Anna Kristjana Helgadóttir og Matthildur Guðrún Hlín hlutu öll hetjudáðamerki.

Þau sem hlutu hetjudáðamerki voru Jón Andri Helgason úr skátafélaginu Árbúum, Anna Kristjana Helgadóttir úr skátafélaginu Klakki og Matthildur Guðrún Hlín Leósdóttir, átta ára skáti úr skátafélaginu Heiðabúum í Reykjanesbæ.

Matthildur veitti móður sinni lífsbjörg þegar kransæð rofnaði hjá móðurinn og þær voru tvær einar heima. Ungi skátinn lét móður sína hringja í 112, hlúði að henni þar til sjúkrabíll kom og sá til þess að sjúkraflutningsmenn kæmust inn í húsið.

Hópur eldri skáta úr Hraunbúum í Hafnarfirði fengu auk þess heiðursmerki sem viðurkenningu á áratuga löngu starfi sínu fyrir hreyfinguna.

Á þinginu um helgina blæs Bandalag íslenskra skáta til nýrrar herferðar í fjölgun skátafélaga á landsbyggðinni og verða því vinnusmiðjur yfir helgina sem miða að undirbúningi þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.