Karlarnir 80 hafa verið duglegir að æfa sig saman í Guðríðarkirkju í Grafarvogi enda mikið fram undan hjá sameiginlegum kórum og þeir önnum kafnir í söngnum.
Hér erum við að tala um Karlakór Hreppamanna og Sprettskórinn, sem er líka karlakór en sami stjórnandi er í þeim báðum eða Atli Guðlaugsson og píanóleikari er Sigurður Helgi. Þrennir vortónleikar eru nú fram undan og svo verða líka tónleikar í Skálholti 27. júlí í sumar eða rétt áður en kórarnir fara með forseta Íslands á 150 ára afmælishátíð í Gimli í Kanada.
„Við höfum æft sama prógrammið á báðum stöðum eða á Flúðum og í Kópavogi,“ segir Atli.
Og verður ferðin í Gimli ekki mjög skemmtilegt og upplífgandi fyrir kórana?
„Jú, jú þetta verður í bland tónleika og skemmtiferð. Þeir þurfa að syngja í svona fjóra daga og skemmta sér í fimm,“ segir Atli hlæjandi.
En hvernig gengur Atla að stjórna 80 körlum?
„Það er ekkert erfiðara að stjórna átta tíu heldur en tveimur körlum, það er oft erfiðara að vera með tvo en átta tíu.“

Og formenn kóranna eru ánægðir með samstarfið og það sem fram undan er.
„Þessir kórar erumjög líkir, ég held að það sé bara margt svipað með þeim, hestamenn mikið í báðum kórum,” segir Loftur Snæfells Magnússon. formaður Karlakórs Hreppamanna.
„Já, hestamenn eru skemmtilegir,” bætir Einar Pétursson, formaður Sprettskórsins við.
Og þið eruð með létt og skemmtilegt prógramm eða hvað?
„Já, við erum með íslenskt, ættjarðar íslenskt, sem við ætlum að fara með út, þannig að við æfum mikið af því,” segir Loftur.
„Það verður engin svikin af því að mæta og hlusta á okkur,” bætir Einar við.

