Páll gaf góð ráð varðandi kaup og sölu fasteigna í nýlegum hlaðvarpsþætti „Viltu finna milljón“, sem er í umsjón Arnars Þórs Ólafssonar og Hrefnu Sverrisdóttur.
Mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun
Hann bendir á að margar fasteignasölur bjóði fast gjald í stað hlutfalls af söluverði og að möguleikar fólks séu meiri en margir geri sér grein fyrir. Fólk geti samið um þóknun.
„Það er um að gera að gera það og heyra í nokkrum fasteignasölum og bera saman. Það eru til fasteignasölur sem bjóða fast gjald. Það er meira að segja til fyrirbæri sem þú getur selt sjálfur, þarft kannski að borga einhverja þóknum fyrir það. Þú getur selt sjálfur og ég á meira að segja til eyðublöðin, kaupsamninginn og afsöl og svo framvegis. Ég hef meira að segja gefið fólki það ef það vill ganga frá því sjálft ef það treystir sér til.“
Páll ítrekar að þó flestir kjósi að nýta sér faglega þjónustu sé mikilvægt að gera það með upplýstu samþykki og vita hvað maður er að greiða fyrir. Hann segir að algengasta þóknun fasteignasala í dag sé um 1,5 prósent af söluverði, en að sú upphæð geti hreyfst til – allt eftir aðstæðum, eign, staðsetningu og viðsemjendum.
Þrif algengasti ágreiningurinn
„Vitið þið hver algengasti ágreiningurinn er?“ spyr Páll. Hrefna giskaði á að það væru þrifin.
„Það er hárrétt,“ segir Páll kíminn.
„Ég tek það fram að þetta er ekki algengt, flestir seljendur vilja vanda sig.“
„Ég segi alltaf við seljendur: Jólahreingerning tvisvar á ári. Afhentu vel, þá eru miklu minni líkur á því að það komi einhverjir eftirmálar. Ef þú hugsar líka um að gera allt til að kaupandinn verði ánægður. Ekki bara gera það minnsta sem þú getur gert. Það gengur alltaf miklu betur ef þú setur hjarta í þetta og tryggir að kaupandinn verði ánægður.“
Þáttinn í heild sinni má heyra í spilaranum hér að neðan: