Innlent

Annað veiði­fé­lag rann­sakað vegna ó­lög­legs fisk­eldis

Árni Sæberg skrifar
Matvælastofnun hefur meint ólöglegt fiskeldi til rannsóknar.
Matvælastofnun hefur meint ólöglegt fiskeldi til rannsóknar. Vísir

Matvælastofnun hefur meint ólöglegt fiskeldi veiðifélags á Suðurlandi til rannsóknar. Innan við vika er síðan stofnunin beitti veiðifélag á Suðurlandi stjórnvaldssekt fyrir sams konar brot.

Í tilkynningu á vef MAST segir að stofnuninni hafi borist ábending um ólöglegt fiskeldi á Suðurlandi. Við eftirgrennslan starfsmanna stofnunarinnar hafi komið í ljós að fiskeldi væri viðhaft í húsnæði á Suðurlandi án rekstrar- og starfsleyfa.

Vörnum gegn stroki ábótavant 

Við nánari eftirgrennslan hafi það reynst vera veiðifélag sem ali villt seiði í þeim tilgangi að sleppa þeim í veiðiá í vor.

Húsnæðið þar sem starfsemin er stunduð uppfylli ekki skilyrði laga og reglugerða um fiskeldi auk þess sem vörnum gegn stroki sé ábótavant.

Matvælastofnun hafi málið til rannsóknar og muni upplýsa um málið að rannsókn lokinni.

Vinna að því að loka annarri stöð

Á föstudag í síðustu viku var greint frá því að MAST hefði sektað veiðifélag um þrjár milljónir króna fyrir að hafa flutt 150 þúsund seiði í eldisstöð sem hvorki væri með rekstrar- né starfsleyfi til fiskeldis. 

„Matvælastofnun vinnur jafnframt að því að loka starfsemi stöðvarinnar. Við ákvörðun sektarinnar var tekið tillit til alvarleika brotsins, hvað það stóð yfir lengi, samstarfsvilja veiðifélagsins, hvort um ítrekað brot hafi verið um að ræða, verðmæti ólögmætrar framleiðslu og hvort félagið hafi eða hafi getað haft ávinning af brotinu,“ sagði í tilkynningu frá MAST.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×