Innlent

Sjálf­stæðis­flokkur fengi tæpan þriðjung

Árni Sæberg skrifar
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Hildur Björnsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Stöð 2/Einar

Ef kosið yrði í Reykjavík á morgun fengi Sjálfstæðisflokkurinn tæpan þriðjung atkvæða, ef marka má nýja skoðanakönnun. Samfylking fengi fjórðung en enginn annar flokkur næði meira en tíu prósentum atkvæða.

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu mælist Sjálfstæðisflokkur með 31,9 prósenta fylgi, Samfylking, 25,3 prósenta, Viðreisn 10 prósenta, Sósíalistaflokkurinn 8,3 prósenta, Píratar 6 prósenta, Flokkur fólksins 5,7 prósenta, Miðflokkurinn 5,1 prósents, Framsóknarflokkurinn 4,7 prósenta og Vinstri græn þriggja prósenta.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir mest við sig frá síðustu könnun, sem framkvæmd var í nóvember í fyrra, eða ríflega átta prósentustigum. Framsóknarflokkur bætir við sig 1,7 prósentum. Viðreisn tapar langmestu fylgi milli kannanna, eða rétt tæplega fimm prósentum. Sósíalistar og Píratar tapa tveimur prósentum og fylgi annarra flokka breytist um innan við eitt prósentustig.

Í borgarstjórnarkosningum árið 2022 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 24,5 prósenta fylgi og sex menn, Samfylking 20,3 prósenta og fimm menn, Framsókn 18,7 prósent og fjóra menn, Píratar 11,6 prósent og þrjá menn, Sósíalistar 7,7 prósent og tvo menn, Viðreisn 5,2 prósent og einn mann, Flokkur fólksins, 4,5 prósent og einn mann, Vinstri græn 4 prósent og einn mann og Miflokkur hlaut 2,45 og engan mann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×