Einn lést, tveir eru alvarlega særðir og sjálfur fékk Trump skot í eyra en hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.
„Árásin á Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á kosningafundi gærdagsins er átakanleg. Pólitískt ofbeldi á engan stað í samfélögum okkar. Hugur minn er hjá honum, öðrum fórnarlömbum, og fjölskyldum þeirra á erfiðum tíma. Ég óska Donald Trump skjóts bata,“ skrifar Bjarni í færslu á samfélagsmiðlinum X.
Hann bætist þar með í stóran hóp þjóðarleiðtoga sem fordæma árásina og óska Trump bata.
Sigmundur ekki hrifinn af CNN
Bjarni er ekki fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn til að láta sig málið varða á X. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birti færslu í gær þar sem hann gagnrýndi fréttaflutning bandaríska miðilsins CNN af málinu.
Sigmundur setti út á fréttamat CNN, sem setti frétt um árásina í þriðja efsta pláss á vefnum sínum. Jafnframt virtist hann ósáttur með fyrirsögn miðilsins.
„Við vitum að CNN er ekki hrifið af Trump en er þetta ekki einum of langt gengið út frá óháðu fréttamati? Beint í þriðju frétt undir fyrirsögninni „Öryggisþjónustan drífur Trump af sviði eftir að hann dettur á kosningafundi““