Erlent

Meira en þrjár milljónir manna hafa greinst með kórónuveiruna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í dag um borð í Staten Island-ferjunni í New York í Bandaríkjunum en New York er það ríki landsins sem farið hefur hvað verst út úr faraldrinum.
Myndin er tekin í dag um borð í Staten Island-ferjunni í New York í Bandaríkjunum en New York er það ríki landsins sem farið hefur hvað verst út úr faraldrinum. Getty/Spencer Platt

Meira en þrjár milljónir manna í heiminum hafa nú greinst með kórónuveiruna sem veldur sjúkdómnum Covid-19 síðan hennar varð fyrst vart í borginni Wuhan í Kína undir lok síðasta árs.

Frá þessu er greint á vef Guardian og vísað í gögn frá Johns Hopkins-háskólanum í Bandaríkjunum. Þá hafa fleiri en 200 þúsund manns látið lífið af völdum veirunnar.

Langflest tilfelli hafa greinst í Bandaríkjunum eða alls 972.969 talsins. Næstflest tilfelli eru á Spáni, 229.422, þá kemur Ítalía með 199.414 tilfelli og síðan Frakkland með 162.220 tilfelli af veirunni.

Hafa ber þó í huga að kríterían fyrir sýnatöku er alls ekki sú sama um heim allan og því mismikið tekið af sýnum í hverju landi fyrir sig. Þá hafa vaknað spurningar um hvort verið sé að nota nægilega góðu veirupróf alls staðar.

Því má halda því fram að ómögulegt sé að segja til um nákvæmlega hversu margir hafa í raun smitast.

Hér á Íslandi hafa 1792 einstaklingar greinst með veiruna. Í dag eru virk smit 158 og síðasta sólarhring greindist enginn með veiruna hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×