Fleiri fréttir

Skyactive kerfi Mazda það grænasta

Hinar ýmsu stofnanir og tímariti keppast við að verðlauna umhverfisvæna bíla framleiðendanna. Bílar eins og Chevrolet Volt, Nissan Leaf og Ford C-Max Energy hafa hlotið slík verðlaun. Tímaritið Green Car Journal horfir á umhverfismálin í víðari skilningi og verðlaunaði fyrir skömmu þá heildarlausn framleiðendanna sem skilar mestum árangri í umhverfisvernd. Þau verðlaun hlaut Skyactive kerfi Mazda nú. Í því felast ekki bara einstaklega eyðslugrannar Skyactive vélar Mazda heldur einnig þróun léttbyggðra bíla með lága loftmótsstöðu. Mazda hafði undir marga verðuga andstæðinga í þessu vali, meðal annars vélbúnað Fisker Karma og Tesla rafbílaframleiðandanna, Ford Energi plug-in hybrid kerfið, Fiat Multiair, Honda Eco Assist, Toyota RAV4 EV bílana og Nissan Easy-Fill Tire Alert, sem hjálpar ökumönnum að hafa ávallt réttan þrýsting í hjólbörðunum. Green Car Journal veitir einnig verðlaun í nóvember ár hvert fyrir umhverfisvænansta bíla ársins og í fyrra hlaut Ford Fusion þau verðlaun.

Fyrirsæta og sigurvegari í rallakstri

Inessa Tushkanova er engin venjuleg kona. Á milli þess sem hún vinnur rallýkeppnir situr hún fyrir nakin á forsíðu Playboy. Hún keppir reyndar ekki í heimsbikarnum í rallakstri en hefur unnið margar keppnir sem eru örlítið minni í sniðum og er brátt að hefja keppni í Finnish Rally Championship. Hún keppir á Mitsubishi Lancer Evo IX bíl, en á marga aðra frambærilega bíla í bílskúr sínum, svo sem Subaru WRX STI, BMW M6 með 10 strokka vél og nokkra aðra Lancer Evo bíla. Inessa er fædd í Úkraíunu en býr nú í Rússlandi, þar sem tækifærin eru stærri bæði hvað varðar rallakstur og fyrirsætustörf. Inessa hefur gengið til liðs við rallökuliðið PrintSport Racing sem vann finnsku rallmótaröðina á síðasta ári og því ætti hún að vera í góðum höndum. Spurð að því af hverju hún situr fyrir í Playboy á milli keppna sagði Inessa. "Engum líkar við kvenmenn í ökusporti, sem er svo til einokað af karlmönnum, vegna þess að kvenfólk á auðveldara með að fá kostunaraðila. Playboy hjálpar mér einmitt til þess" Allt fyrir betri árangur í uppáhaldsiðju hennar, rallýið. Það er greinilega ekki nóg með að Inessa sé góður ökumaður og gullfalleg fyrirsæta, heldur hefur hún nef fyrir viðskiptum. Markmið hennar eru heldur ekkert smá í sniðum, hún stefnir á að verða heimsmeistari í rallakstri og víst er að mörgum þætti ekkert leiðinlegt að hafa svo snoppufríðan meistara reglulega á síðum blaðanna.

Suzuki Swift klífur 3ja milljóna múrinn

Japanski bílaframleiðandinn Suzuki Motor náði þeim merka áfanga fyrr í þessum mánuði að samanlögð sala á Suzuki Swift fór yfir þrjár milljónir eintaka frá markaðssetningu á bílnum. Suzuki hefur í gegnum tíðina ekki síst sérhæft sig í framleiðslu og sölu á litlum og sportlegum fólksbílum og er Swift ágætt dæmi um þá áherslu. Bíllinn var fyrst framleiddur og seldur í Japan í nóvember 2004 en hann var engu að síður hannaður og þróaður sem bíll fyrir alla heimsbyggðina. Árið 2005 hófst sala á bílnum í Ungverjalandi, Indlandi og Kína. Nú er bíllinn fáanlegur í yfir 120 löndum víðs vegar um heiminn. Swift hefur unnið til fjölda verðlauna. Hann var valinn bíll ársins af blaðamönnum í Japan 2006 og 2011 og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar í Evrópu, Indlandi og víðar. Suzuki Swift varð fyrir valinu sem Bíll ársins 2006 í árlegu kjöri Bandalags íslenskra bílablaðamanna.

Lokuðu hraðbraut til að drifta

Það er í sjálfu sér hættulaust á rýmri svæðum fyrir bíladellukalla að búa til dálítinn gúmmíreyk með því að "drifta" afturhjóladrifnum bílum sínum. Verra er þegar notaðar eru fjölfarnari hraðbrautir til þess arna. En það var einmitt það sem nokkrir ungir menn gerðu í Orange sýslu í Kaliforníu um daginn við lítinn fögnuð lögreglyfirvalda í sýslunni. Það sem meira var, þeir lokuð hraðbrautinni, sem er ekki smásniðnari en sex akreinar. Á meðfylgjandi myndbandi sést til ungmennanna á Ford Mustang, Chevrolet Camaro og nokkrum Nissan 240SX bílum leika sér að búa til "kleinuhringi" á hraðbrautinni. Örugglega gaman hjá þeim en síður fyrir þá sem þurftu að bíða eftir því að þeir lykju sér af.

Mercedes Benz auglýsing tekin á Íslandi

Nýleg auglýsing Mercedes Benz vegna CLA bíls Benz var tekin hér á landi í fyrra og er mjög forvitnileg áhorfs. Myndskeiðið sem hér má sjá er ríflega þriggja mínútna langt og í því er víða farið um landið. Meðal annars er tekið upp í Mývatnssvæðið, á Nesjavallaleið, við Bláa lónið, við lónið undir Eyjafjöllum og endar myndskeiðið við glæsilegt einbýlishús gegnt Akureyri, hinu megin Eyjafjarðarins. Í auglýsingunni kemur mikið við sögu Husky hundur sem er í hlutverki úlfs eftir ágæta litameðhöndlun. Það örlar aðeins á þjóðarstolti að horfa á glæsikerruna renna um vegina í fagurri íslenskri náttúru. Þegar upptökurnar stóðu yfir á Íslandi höfðu engar myndir sést af þessum nýja bíl Benz. Naskur ljósmyndari náði hinsvegar fyrstu ljósmyndunum af bílnum við Bláa lónið og fóru þær eins og eldur í sinu um netheima.

Renault kynnir jeppling

Franski bílasmiðurinn Renault hefur ekki tekið neinn þátt í samkeppninni á sívaxandi markaði fyrir jepplinga en nú skal gera bragabót á því. Renault ætlar að kynna til leiks þennan jeppling á bílasýningunni í Genf í mars og hefur hann fengið nafnið Captur. Hann verður smíðaður á sama undirvagni og Renault Clio fólksbíllinn. Vélarkostirnir í Captur verða líklega þeir sömu og eru í boði í Clio, eða 0,9 lítra og 1,2 lítra bensínvélar með túrbínu og 1,5 lítra dísilvél. Sex gíra sjálfskipting með tvöfaldri kúplingu tengir síðan vélina við drifrásina. Bíllinn verður smíðaður í Valladolid á Spáni. Það er vonandi að þessi knái jepplingur hjálpi Renault að bæta afkomuna, sem hefur ekki verið góð undanfarin misseri.

Rafmagnsbílar á útsölu

Þeir bílaframleiðendur sem selja rafmagnsbíla eiga flestir í vanda að finna kaupendur. Ford er einn þeirra en fyrirtækið hefur boðið Ford Focus rafmagnsbíl í nokkurn tíma. Ekki hefur betur tekist til við sölu hans en svo að heildarsalan í fyrra var einungis 685 bílar. Ford hefur nú brugðist við því með því að lækka bílinn um 4.000 dollara. Þó virðist enn hagstæðara að taka hann á rekstrarleigu til þriggja ára því leigan hefur lækkað sem nemur 10.750 dollurum. Þannig má leigja hann fyrir 285 dollara á mánuði, eða 36.700 kr. og aka honum allt að 17.000 kílómetra á ári. Nissan hefur átt í sama vanda með Leaf rafmagnsbíl sinn og hefur boðað 18% lækkun á 2013 árgerð hans. Hann mun kosta 28.800 dollara, eða 3,7 milljónir króna. Það er ekki hátt verð fyrir rafmagnsbíl og einsýnt að Nissan græðir ekki mikið á sölu hvers bíls heldur tapar líklega á hverju seldu eintaki.

Styttist í eins líters bíl Volkswagen

Í mörg ár hefur Volkswagen unnið að þróun bíls sem ekki á að eyða meira en einum lítra af eldsneyti á hverja hundrað kílómetra. Svo langt er smíði hans komin að verið er að prófa bílinn í miklum kulda og snjó. Prófanirnar eiga að sjálfsögðu að vera leynilegar en eins og ávallt tekst einhverjum ljósmyndurum að ná myndum af gripnum. Þar sést í fyrsta skipti ljósabúnaður hans að framan. Heiti bílsins er Volkswagen XL1. Hann er tveggja dyra bíll með tveggja strokka 0,8 l. dísilvél, 48 hestafla og rafmótora sem skila aukalega 27 hestöflum. Skiptingin er 7 gíra DSG sjálfskipting með tveimur kúplingum. Loftmótsstaða bílsins er sú lægsta sem um getur í bíl eða 0.186 Cd. Til að minnka viðnám er bíllinn á afar mjóum dekkjum og hluti af lágri loftmótsstöðu bílsins skýrist af því að bæði aftur- og framhjólin eru inndregin frá brettunum, eins og sést á myndinni. Bíllinn lítur út fyrir að vera nokkuð stór en raunveruleikinn er annar, hann er svipað langur og breiður og Volkswagen Polo. Hann er einstaklega léttur enda allt verið gert til að hafa hann eins léttan og kostur er svo hann nái takmarkinu um eins lítra eyðslu. Hann er 796 kíló og erfitt að finna léttari bíl. Mjög misvísandi fréttir eru af getu bílsins og herma sumar að hann sé heilar 32 sekúndur að ná 100 km hraða meðan aðrar sögur segja 11,9 sékúndur. Fréttir frá Volkswagen herma að XL1 bíllinn muni koma til valdra söluaðila í takmörkuðu magni á þessu ári. Því er ekki langt að bíða þessa tímamótabíls, sem ekki myndi kosta meira að aka til Akureyrar en 1.000 krónur.

Nýr Kia til höfuðs Nissan Juke

Kia mun kynna nýjan og sportlegan bíl á bílasýningunni í Genf í byrjun mars og lofa myndir af honum góðu. Kia hefur sjálft látið þær í té svona til auka aðeins spennuna fyrir honum. Þessum bíl er meðal annars ætlað það hlutverk að keppa við Nissan Juke jepplinginn og er ekki ósvipað form á þeim tveimur. Bíllinn virðist liggja einhversstaðar á milli stallbaks og jepplings og útlitið hans er skemmtilega djarft og framsækið. Fleiri upplýsingar um bílinn, svo sem um vélbúnað, liggja ekki fyrir og bíður sýningarinnar í Genf. Á myndunum að dæma er enginn B-póstur í bílnum fyrir aftan hurðirnar og afar smár gluggi þar fyrir aftan, eins og títt er með sportbíla. Afturendi bílsins er ári bólginn kringum afturhjólin og skottlínan há. Grillið á bílnum er talsvert frábrugðið öðrum Kia bílum. Nýrnalaga formið heldur sér þó en er mjög teygt og mjótt. Í heildina má segja að erfitt sé að greina að þetta sé bíll frá Kia, en gefur ef til vill tóninn um það sem frá kóreska framleiðandanum kemur á næstunni. Það væri ekki til tjóns ef marka má myndirnar.

Laglegri og betri Auris

Ný kynslóð Toyota Auris var kynnt blaðamönnum fyrir stuttu í strandbænum Cascaís suður af Lissabon, höfuðborg Portúgals. Toyota Auris er í C-stærðarflokki og á hann 3 minni bræður af Toyota gerð, IQ, Aygo og Yaris, en næsti bíll fyrir ofan hann að stærð er Corolla. Um talsvert breyttan bíl er að ræða og mun fallegri en síðustu kynslóð hans. Toyota hefur sagst ætla að hverfa frá afturhaldssamri og átakalítilli hönnun á bílum sínum og gerast djarfari og marka skarpari línur. Það hefur að nokkru tekist með ytra útlit Auris, hann er talsvert fríðari en djörfung er kannski ekki fyrsta orðið sem kemur í hugann þegar hann er barinn augum. Auris hefur verið vinsæll bíll frá því hann fyrst leit dagsljósið árið 2006 og ári seinna í Evrópu. Hann hefur alls selst í 5 milljónum eintaka og í fyrra seldust 189 eintök hans hér á landi, sýnu fleiri með bensínvél en díselvél. Það gæti breyst í ár. Góð dísilvél en Hybrid öflugastur Sjaldgæft er að þrjár vélargerðir séu í boði í prufunum en Auris var prófaður með bensínvél, díselvél og í Hybrid útfærslu. Tvær þeirra líkuðu mjög vel en ein síður. Dísilvélin er 1,4 lítra og skilar 90 hestöflum. Hún togar mjög vel og aflið er merkilega gott fyrir ekki stærri vél. Bensínbíllinn var með 1,33 lítra og 100 hestafla vél. Með henni er bíllinn ansi latur og uppfyllir seint kröfur ökumanna sem ekki vilja ávallt silast áfram í umferðinni. Aflmesti bíllinn var Hybrid útgáfa Auris með 1,8 l. bensínvél með tvinntækni sem skilar 136 hestöflum.Það þarf þó ekki að þýða að hann sé besti akstursbíllinn því þyngd hans dregur úr hæfninni og dísilútgáfan með sprækri en lítilli vél er sá liprasti þeirra að mati greinarskrifara. Hybrid bíllinn er með uppgefna fáheyrða eyðslu uppá 2,1 l. á hverja hundrað kílómetra. Leit er að öðru eins. Bíllinn með dísilvélinni nýðist ekki heldur beint á náttúrunni því uppgefin meðaleyðsla hans er 3,8 lítrar, en 5,4 l. með litlu bensínvélinni. Bensínbíllinn er líka umtalsvert ódýrastur þeirra og munar 300.000 krónum á honum og ódýrasta dísilbílnum. Lipur akstursbíll sem hefur batnað Talsverðu hefur verið breytt frá fyrri kynslóð sem eykur aksturshæfni hans. Bíllinn er 50 kg léttari, hefur lækkað um 5,5 cm og sætisstaðan um 4 cm. Því er þyngdarpunkturinn umtalsvert neðar. Hann er með nýjan undirvagn og fjöðrun, er allur stífari og betur hljóðeinangraður. Fyrir vikið er bíllinn mun betri og liprari í akstri og var þó forverinn enginn stirðbusi. Ánægjulegt var að henda honum eftir oft á tíðum hlykkjóttum vegum smábæja og vogskorinni ströndinni. Auris er ferlega einfaldur og ljúfur í keyrslu og grær utanum ökumann. Ekki versnar það þegar komið er á meiri hraðakstursvegi og eru fáir bílar af þessari stærð eins stöðugir á vegi á dágóðri ferð. Athygli vakti einnig að bíllinn náði meira en uppgefnum hámarkshraða og fór einkar vel með það á góðum hraðakstursvegi. Ein stærsta og jákvæðasta breytingin milli kynslóða er nákvæmara stýri sem svarar ökumanni betur. Auris má bæði fá með beinskiptingu og CVT-sjálfskiptingu. Beinskiptingin er fín og lipur í notkun en ekki hefur enn tekist að gera CVT-sjálfskiptinguna nógu góða til að hún komi til greina framyfir bílinn beinskiptan. Hún hefur til dæmis þann ókost að ef þarf að flýta sér hækkar snúningurinn endalaust og hávaðinn eftir því. Viðbrögðin er oftast þau að fara af bensíngjöfinni og þá er gamanið dálítið búið. Lygilega rúmgott innanrými Að innan er Auris sniðuglega hannaður og rúmmikill. Fótarými afturí hefur lengst um 2 cm og skottið er heilir 360 lítrar, þökk sé sniðuglegri hönnun. Það á einnig við Hybrid bílinn, því batteríin sem tóku af því 120 lítra áður eru nú komin undir sætin. Innréttingin er hagnýt og hún og mælaborð ári laglegt en í heild er innréttingin í meðallagi af fegurð sökum slakari efnisnotkunar en hjá mörgum samkeppnisbílum hans. Allt er greinilega vel smíðað sem ávallt hjá Toyota, en viss hráleiki streymir frá innréttingunni sökum þessa. Taka þarf sérstaklega fram að það á ekki við Hybrid bílinn sem og dýrustu útfærslur á innréttingum hinna bílanna. Það er ekki að efa að Auris mun vegna vel sem fyrr, en hann á samt í höggi við marga ágæta bíla í sama stærðarflokki, svo sem Volkswagen Golf, Ford Focus, Kia cee´d, Hyundai i30, Mazda3, Honda Civic, Opel Astra, Renault Megane og Citroën C4, svo einhverjir séu nefndir. Kostir: Merkilega rúmur að innan Mikið bætt akstursgeta Spræk dísilvél Ókostir: Efnisnotkun í innréttingu CVT-sjálfskiptingin

Róleg byrjun á Íslandi en kröftug í Bandaríkjunum

Nýja árið hefst ekki á samskonar hátt í bílasölu hérlendis og í Bandaríkjunum. Fram til 25. janúar hafa aðeins selst 385 fólksbílar hér og þó að salan færi eitthvað yfir 400 bíla í mánuðinum mun salan ekki ná meðalsölu hvers mánaðar í fyrra. Í fyrra seldust um 7.900 bílar, eða um 660 bílar á mánuði. Hafa verður þó í huga að sala á bílaleigubílum er líklega í lágmarki í byrjun hvers árs, en tekur stökk á vorin. Í Bandaríkjunum er salan 8% meiri en í janúar í fyrra, en bílasala þar vestanhafs í fyrra var mjög góð og þar seldust 14,5 milljónir bíla. Ef salan nú heldur áfram sem horfir gæti hún náð yfir 15 milljónum bíla. Því var reyndar spáð í byrjun árs. Í Bandaríkjunum eru fyrstu tveir mánuðir ársins oftast þeir slökustu í sölu, en vöxturinn frá því í fyrra samt umtalsverður. Vestanhafs hefur Ford og Chrysler gengið mjög vel það sem af er árs og búist við yfir 16% söluaukningu hjá þeim báðum er núverandi mánuður verður gerður upp.

Kia cee´d GT - 204 hestöfl

Á bílasýningunni í Genf í mars mun Kia kynna kraftaútfærslu af magnsölubílnum Kia cee´d, sem selst hefur ágætlega hér á landi. Hann er með 1,6 lítra bensínvél með túrbínu og 204 hestöfl. Hann skartar auk þess 18 tommu álfelgum, Recaro sætum, fótstigum úr áli, LED ljósum, tvöföldu pústkerfi og aðeins 2 hurðum eins og sönnum sportbíl sæmir. Kia cee´d GT verður innan við 8 sekúndur í hundraðið. Bíllinn er talsvert frábruginn venjulegum Kia cee´e að ytra útliti, en hann var teiknaður í hönnunarstúdíói Kia í Frankfurt í Þýskalndi og aðalhönnuður hans eins og með aðra Kia bíla var Peter Schreyer. Bíllinn verður hinsvegar smíðaður í Slóvakíu og framleiðslan hefst í maí.

Pagani Huayra bætti Top Gear brautartímann

Nýjasta þáttaröð Top Gear hóf göngu sína á BBC 2 í Bretlandi um síðustu helgi og eitt af því sem þar bar fyrir augu þar var nýtt brautarmet á hinni sérstöku hraðakstursbraut Top Gear, sem er á gömlum flugvelli. Það var Pagani Huayra ofurbíllinn sem það gerði og nýja metið er nú 1 mínúta, 13,8 sekúndur. Metið tók Pagani bíllinn af Ariel Atom V8 500 og bætti það um 1,3 sekúndur. Að sjálfsögðu var það sérlegur hraðakstursökumaður Top Gear þáttanna, "The Stig" sem ók bílnum.

Leyfa Írar hóflegan ölvunarakstur?

Flest lönd hafa hert reglur er varða hámarks vínanda í blóði ökumanna, en uppi er hugmynd á Írlandi sem gengur í þveröfuga átt. Írskur þingmaður hefur miklar áhyggjur af einangrun gamals fólks á landsbyggðinni. Hann telur að harðar reglur gegn akstri undir áhrifum geri það að verkum að gamla fólkið sitji heima frekar en að sækja þann eina félagsskap sem þeir margir hverjir hafa möguleika á, það er á pöbbinn. Því sé alveg ómögulegt að þeim leyfist ekki að aka bílum sínum þaðan og heim eftir að hafa skvett í sig örfáum bjórum. Þingmaðurinn vill aðeins leyfa rýmri reglur á ákveðnum svæðum í landinu, þar sem vandi þessa fólks er sem mestur, í dreifðari byggðum. Hann telur einnig að takmarka ætti hámarkshraða þann sem leyfður yrði hjá þeim sem lögin tækju til við 20 til 30 mílur, eða 35-50 kílómetra hraða. Ekki eru allir sammála tillögu þingmannsins ágæta, en hann á örugglega nokkuð fleiri vini á landsbyggðinni nú en áður en hann bar fram þessa sérstöku tillögu.

Benz, Ford og Nissan þróa saman vetnisbíla

Í gær var skrifað undir samstarfssamning milli þessara þriggja stóru bílaframleiðenda um þróun og framleiðslu á vetnisbílum sem koma eiga á markað árið 2017. Framleiðendurnir segja að þessi samningur marki tímamót í markmiðum þeirra að framleiða bíla sem menga ekki neitt. Í honum þeim felist skýr skilaboð til ráðamanna, bílamarkaðarins og birgja um þá stefnu sem þau hafa tekið. "Við höfum aldrei verið eins nálægt byltingarkenndri þróun vetnisbíla og nú með þessu samstarfi" sögðu stjórnendur bílaframleiðendanna. Framleiðendurnir þrír ætla að smíða a.m.k. 100.000 vetnisbíla í þessu samstarfi og allir aðilar leggja til jafnt fjármagn. Í síðustu viku kynntu Toyota og BMW samskonar samstarf um þróun vetnisbíla. Því virðist sem bílaframleiðendur séu þessa dagana að makka sig flestir saman til að dreifa hinum mikla þróunarkostnaði sem óhjákvæmilegur er. Renault á möguleika á að ganga inn í samstarf Benz, Ford og Nissan vegna tengsla sinna við Nissan og enn fleiri framleiðendur gætu bæst við því framleiðendurnir þrír vilja halda því mjög opnu.

Toyota aftur stærst

Toyota náði aftur toppsætinu af General Motors sem stærsti bílaframleiðandi heims fyrir liðið ár en GM var stærst árið 2011. Toyota hafði haldið titlinum þar á undan í þrjú ár, þ.e. frá 2008 til 2010, en í 77 ár þar á undan hafði GM verið stærsti bílaframleiðandi í heimi. Í fyrra seldi Toyota 9,75 milljón bíla, GM 9,29 og Volkswagen 9,07. Vöxtur Toyota í fyrra frá árinu á undan var mjög mikill, eða 23% en sala Daihatsu, Hino og Lexus teljast með þar sem Toyota á þau öll. Þessi mikla söluaukning skýrist að talsverðum hluta af lítilli sölu Toyota árinu áður vegna stóra jarðskjálftans í Japan sem hamlaði mjög framleiðslunni það ár. Sala Toyota í Evrópu óx aðeins um 2%, en um 27% í Bandaríkjunum. Í Japan óx salan um heil 35%, en hún minnkaði hinsvegar í Kína, ekki síst vegna milliríkjadeilu Japan og Kína um yfirráð yfir smáeyjum í A-Kínahafi. Toyota áætlar að selja 9,91 milljón bíla í ár. Japanska jenið hefur fallið um ríflega 5% sl. mánuð og gæti frekara fall gjaldmiðilsins hjálpað Toyota mjög að selja bíla utan heimalandsins í ár.

Bannað að fá skráningarnúmerið GAYGUY

James Cyrus Gilbert III, sem er samkynhneigður, hefur verið neitað um skráningarnúmerið GAYGUY á bíl sinn í Georgíufylki í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig sótt um skráningarnúmerin 4GAYLIB og GAYPWR en einnig verið neitað um þau. Því hefur hann farið í mál við Georgia Department of Driver Services á grundvelli þess að tjáningarfrelsi hans sé heft með neitun stofnunarinnar. Í lögum í Georgíu varðandi skráningarplötur á bílum kveður á um bann við blótsyrðum, orðfæri sem sært gæti blygðunarkennd fólks eða hæðir fólk. Einnig er bann við trúarlegum skilaboðum, kynþáttar- eða þjóðernistengdum skilaboðum sem og hégómlegum. Engu að síður hafa skráningarplötur eins og HATERS, BLKBUTI og JESUS4U fengist skráð og er á það bent með kærunni sem James hefur lagt fram. Yfirvöld í Georgíufylki hafa viðurkennt að erfitt sé að fylgja þeim lögum sem um skráningarnúmerin gilda og mikið ósamræmi sé á túlkun þeirra og að ógerningur sé að gæta sjónarmiða hlutleysis. Í því ljósi er ólíklegt að stofnunin vinni málið og því er líklegt að James geti brátt ekið um götur fylkisins með skráningarnúmerið GAYGUY.

Fyrsti tvinnbíll Subaru

Í fyrra greindi Subaru frá því að í ár kæmi fram þeirra fyrsti tvinnbíll (Hybrid). Síðan þá hafa bílaáhugamenn velt því fyrir sér hvort Subaru myndi þróa eigin tvinnbúnað eða kaupa slíkan búnað frá öðrum, t.d. Toyota. Einnig var áleitið í hvaða bíl Subaru tvinntæknin myndi fyrst birtast, Forester, Legacy eða Outback, eða í nýjum bíl. Þriðja spurningin var svo hvort bíllinn væri ætlaður fyrir heimamarkað eða Bandaríkjamarkað. Nú eru komin svör við tveimur af þessum spurningum. Bíllinn mun verða með tvinntæknibúnað sem Subaru hefur þróað sjálft, hann mun bæði vera ætlaður fyrir heima- og Bandaríkjamarkað en svarið við því í hvaða bíl Subaru búnaðurinn fyrst birtist verður að bíða New York bílasýningarinnar 27. mars. Mögulega verður það í nýjum bíl Subaru sem byggir á Hybrid Tourer Concept bílnum sem Subaru kynnti á Tokyo bílasýningunni árið 2009 og sést á myndinni hér að ofan. Í þeim bíl var 2,0 lítra boxervél, 13 hestafla rafmagnsmótor og CVT skipting.

Sögulegt ár framundan?

Það verður tæplegast skemmtiefni að rýna í uppgjör síðasta árs í Evrópu fyrir flesta bílaframleiðendur, nema helst þá þýsku. Sala á bílum í Evrópu var mjög dræm á síðasta ári og það voru ekki bara bílaframleiðendurnir í suðurhluta Evrópu sem fóru illa út úr rekstrinum í álfunni. Sá hluti General Motors sem snýr að sölu Opel- og Vauxhall-bíla mun þurfa að þola 195 milljarða króna tap sl. ár. Bætist það við 2.060 milljarðs króna tap sem hefur verið á þeim rekstri í Evrópu 12 ár þar á undan. Ford mun tæplega skila minna tapi en 200 milljarða króna á rekstrinum í Evrópu og ekki stefnir í betri útkomu í ár. Peugeot-Citroën toppar þó bæði GM og Ford og mun skila allt að 245 milljarða tapi. Uppgjör Fiat verður aðeins skárra, um 130 milljarðs króna tap og Renault mun skila aðeins betri niðurstöðu, en vænu tapi samt. Öðru máli gegnir um flesta þýsku framleiðendurna og munu Volkswagen, BMW, Mercedes Benz, Audi og Porsche öll skila þokkalegum hagnaði. Hagnaður BMW og Mercedes verður þó minni en árið þar á undan. Allir framleiðendurnir utan Þýskalands eru að skera niður í rekstri og laga sig að erfiðum aðstæðum sem munu að minnsta kosti standa út þetta ár. Ýmsir spádómar hafa fengið flug á þessum erfiðu tíma framleiðendanna í Evrópu, svo sem að Volkswagen muni kaupa Alfa Romeo og Ferrari af Fiat, en Fiat veitir ekki af peningunum til að kaupa upp Chrysler, eins og það áformar. Aðrar raddir herma að GM muni endanlega gefast upp á Opel, en hver kaupir væri óljósara. Þá gæti það gerst að Renault rynni inní Peugeot-Citroën eða yrði keypt af kínverskum bílaframleiðenda sem hyggðist stytta sér leið inná evrópska markaðinn. Þá hafa einnig heyrst raddir um að Fiat/Chrysler muni bindast þriðja aðila og sækja fjármagn í leiðinni og þar væri kínverskir bílaframleiðendur líklegir. Það gæti því orðið nokkuð sögulegt ár í evrópskri bílasögu og miklar væringar.

Atvinnuleysi í Saab-bænum 16%

Þrátt fyrir mesta atvinnuleysi í Svíþjóð í heimabæ Saab, Trollhättan, ríkir þar nokkur bjartsýni. Ástæða þess er sú að hjólin fara aftur að snúast í verksmiðju Saab í ágúst. Í fyrstu verða smíðaðir þar venjulegir Saab 9-3 bílar með dísilvél en seinna meir verða þeir knúnir rafmagni. Í verksmiðjunni hefur ekki verið nein starfssemi í næstum tvö ár. Fjöldi starfsmanna í verksmiðjunni fyrir lokun var 3.400, sem samsvarar 7% af íbúum Trollhättan. Nýr eigandi Saab er kínverskur fjárfestingasjóður sem er mjög einarður í því að útvega kínverjum rafmagnsbíla. Fyrst skal þó búa til fjármagn með framleiðslu og sölu hefðbundinna Saab bíla og markmiðið að selja 120.000 bíla árið 2016. Yrði það nálægt sölumeti Saab frá árinu 2006 er það seldi 133.000 bíla. Margir eru efins um að þessar áætlanir gangi eftir. Það gæti þó að miklu leiti hangið á áætlunum kínverskra yfirvalda að setja upp 400.000 hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla í 20 þarlendum borgum til og með árinu 2015. Draumur kínverskra yfirvalda er að árið 2015 muni seljast 500.000 rafmagnsbílar, en salan nam 12.791 bíl í fyrra. Það er því langt í land. Eigandi Saab ætlar að byggja aðra Saab verksmiðju í kínversku borginni Qingdao og hafa borgaryfirvöld þar fjárfest í Saab fyrir 307 milljónir dollara og fengið fyrir vikið 22% eignarhald í Saab.

Heimsmet í reykspólun

Þessi hálffáránlegi atburður hefur verið skráður í Guiness heimsmetabókin sem fjölmennasta samhliða reykspólið. Þar þöndu 69 ökumenn hestöflin í bílum sínum svo af hlaust verra skyggni en á gamlárskvöld á Íslandi í skotgleðinni miðri. Á þetta horfðu 10.000 manns á bílasýningu í Canberra í Ástralíu og höfðu örugglega gaman af. Voru þarna að verki 35.000 hestöfl sem breyttu gúmmíi í þéttan reyk í allskonar lit, enda sumir með sérstaka litaglaða hjólbarða til verksins. Það tók 6 mánuði að skipuleggja atburðinn en ekki ekki nema 30 sekúndur að framkvæma hann.

Toyota og BMW smíða saman rafmagnssportbíl

Fyrirtækin tvö hafa nú bundist fastari böndum og hyggjast vinna saman að smíði sportbíls sem knúinn verður rafmagni. Í samningi þeirra á milli kveður á um samvinnu í þróun rafhlaða fyrir rafmagnsbíla sem unnið verður að til ársins 2020, þróun næstu kynslóðar vetnisbíla, samvinnu í smíði léttra undirvagna og smíði þessa rafmagnssportbíls. Samningnum fylgir ekki krosseignarhald á milli þessara stóru bílaframleiðanda. Fyrst fréttist af þessu samstarfi BMW og Toyota í desember 2011 en nú virðist samstarfið ætla að verða nokkuð víðtækt. Toyota og BMW hafa einnig bundist með kaupum Toyota á BMW dísilvélum. Munu 1,6 og 2,0 lítra dísilvélar frá BMW sjást í bílum Toyota á næsta ári. Samstarf fyrirtækjanna tveggja tekur einnig til fyrstu rafmagnsbíla BMW sem þýski framleiðandinn ætlar að kynna til leiks síðar á þessu ári í formi i3 borgarbílsins og ári seinna með i8 tvinnbílnum.

Mesta sala á einu ári í sögu Porsche

Fleiri Porsche sportbílar seldust á árinu 2012 en nokkru sinni fyrr í sögu þýska framleiðandans. Alls voru afhentir 141.075 Porsche sportbílar sem er 18,7% aukning frá árinu 2011. Þetta þykir umtalsverður árangur í ljósi efnahagskreppunnar. Sala á Porsche hefur aukist á hverju ári síðastliðin þrjú ár. Á þessu tímabili hefur salan aukist um 83,9%. "Árið 2012 var það árangursríkasta í sögu fyrirtækisins,“ sagði Matthias Müller, forstjóri og aðalframkvæmdastjóri Porsche á bílasýningunni í Detroit sem nú stendur yfir. "Lykilatriði í velgengni okkar er samheldinn og traustur hópur starfsmanna. Við höfum öll spil á hendi til að árið 2013 verði Porsche einnig gæfuríkt. Porsche hyggur á mikla markaðssetningu á þessu ári með nýjum tvinnbílum, eins og t.d. 918 Spyder og sportjeppanum Macan. Söluaukning Porsche var yfir 10% á öllum markaðssvæðum en mest var hún í Asíu og Kyrrahafslöndunum þar sem afhentir voru 50.376 nýir bílar sem er 23,6% aukning. Í Evrópu jókst salan um 13,5%. Í Bandaríkjunum jókst sala á Porsche um 20,7%. Á heimamarkaði, í Þýskalandi, naut Porsche einnig mikillar velgengni þar sem vinsældir 911, Cayenne, Panamera, Boxster og Cayman eru miklar. Þar nam aukningin tæpum 17%. Porsche 911 Carrera var sá bíll sem naut mestu söluaukningar hjá Porsche á síðasta ári. Aukningin nam alls 31,4%. Það er hins vegar Cayenne sportjeppinn sem er söluhæsta einstaka gerðin. Alls seldust 74.763 bílar á síðasta ári sem er 24,8% aukning. Þar af seldust 19.000 eintök af Cayenne S, Cayenne GTS og Cayenne Turbo og þar með heldur Porsche stöðu sinni sem söluhæsti bíllinn í flokki aflmestu sportjeppanna.

Öruggustu bílarnir að mati Euro NCAP

Euro NCAP birti í vikunni lista yfir öruggustu bílana sem í boði eru í Evrópu í hverjum flokki. Sá bíll sem allra hæstu einkunn hlaut fyrir framúrskarandi öryggi var Volvo V40 og hefur enginn bíll hlotið eins háa einkunn og hann frá upphafi. Renault Clio reyndist öruggasti bíllinn í flokknum „Supermini". Í flokki minni fjölskyldubíla (Small MPV) stóðu Fiat 500L og Ford B-Max jafnir og hæstir á blaði. BMW 320d reyndist bestur meðal stærri fjölskyldubíla, Ford Kuga í flokki minni fjórhjóladrifsbíla og Hyundai Santa Fe í flokki stærri fjórhjóladrifsbíla. Ford Transit Custom reyndist bestur á meðal stærri fjölskyldubíla. Allir fengu þessir bíla 5 stjörnur í öryggisprófunum Euro NCAP.

Hundrað verksmiðjur Volkswagen

Volkswagen opnaði sína hundruðustu verksmiðju nýlega í Mexíkó. Í henni verða framleiddar 330.000 vélar í Volkswagen bíla. Þetta er langt frá því eins verksmiðja Volkswagen í Mexíkó því það í landi er nú smíðaðir 600.000 Volkswagen bílar á ári. Volkswagen er þó ekki hætt að fjárfesta í N-Ameríku því áætlanir fyrirtækisins hljóða uppá frekari fjárfestingar fyrir 645 milljarða króna á næstu 5 árum þar. Starfsfólk Volkswagen í heiminum öllum er nú rétt um 500.000 talsins, ríflega helmingi fleiri en allir vinnufærir Íslendingar.

Fyrrum forstjóri Porsche í vanda

Wendelin Wiedeking fyrrverandi forstjóri Porsche hefur verið ákærður vegna gerða sinna við hina misheppnuðu yfirtöku Porsche á Volkswagen. Hann ákvað árið 2008 að auka hlut Porsche í Volkswagen í 75% og meiningin var að eignast fyrirtækið að fullu í kjölfarið. Wiedeking hafði hinsvegar neitað því fimm sinnum að áform Porsche væri að eignast Volkswagen og fyrir vikið féllu hlutabréf umtalsvert í Volkswagen. Það varð til þess að fjárfestar seldu hin fallandi bréf í Volkswagen og á meðan kepptist hann við að kaupa þau öll upp. Þessháttar hegðun og lygi er ekki vel séð í Þýskalandi og þeir sem töpuðu miklu á leikfléttunni kærðu hann fyrir verknaðinn. Volkswagen, eins og mörgum er kunnugt, keypti síðan Porsche, og kláraði yfirtökuna með kaupum á síðustu bréfunum í sportbílaframleiðandanum í fyrra. Réttarhöldin í Wiederking gætu tekið marga mánuði. Einnig er réttað yfir fjármálastjóra Porsche frá tíð Wiederking.

Porsche 918 handan við hornið

Ofurbíllinn Porsche 918 er líklega kominn á framleiðslustigið og sífellt fleiri upplýsingar eru að birtast um bílinn. Meðfylgjandi mynd má finna á vef þýsku einkaleyfastofunnar, sem bendir einmitt til þess að hann sé kominn í framleiðslu. Vitað er að 25 tilbúnir slíkir bílar eru í prófunum víða um heim. Porsche 918 bíllinn er um margt óvenjulegur. Hann er svokallaður tvinnbíll (Plug-in Hybrid) sem hlaða má með heimilisrafmagni og hægt að aka honum 25 km eingöngu á rafmagni og á allt að 145 km hraða. Bíllinn er 770 hestöfl sem fást úr 4,6 l. V8 vél sem skaffar 570 þeirra en rafhlöðurnar 200 hestöflum. Það skilar þessum straumlínulaga bíl í hundraðið á 2,9 sekúndum og hámarkshraðinn er 325 km. Eyðsla hans verður innan við 3 lítrar á hundraðið. Í útliti er bíllinn þónokkuð frábrugðinn öðrum Porsche sportbílum, hann er miklu lengri, breiðari og lægri en t.d. 911 eða Boxter bílarnir. Verð bílsins verður eitthvað í nágrenni við 130 milljónir króna.

Íslandsbíllinn Toyota Hilux annar í París-Dakar

París-Dakar rallinu lauk um helgina í Santiago í Chile. Sigurvegari í bílaflokki var Stephané Peterhansel og það í tíunda skipti í París-Dakar. Hann ók á nýjum bíl Mini Clubman en hafði mörg ár þar á undan unnið á Volkswagen Touareg jeppa. Annar varð annar Frakki, Giliel de Villiers á Íslandsbílnum góða Toyota Hilux. Hann varð þriðji í fyrra á sama bíl og vinnur næst ef hann heldur áfram að sækja á brattann! Villiers var 42 mínútum á eftir Peterhansel. Þriðji í keppninna var síðan Rússin Zhiltsov á samskonar bíl og Peterhansel, Mini Clubman. Það voru 92 bílar sem kláruðu rallið af þeim 153 bílum sem hófu keppni. Þar af voru 4 Toyota Hilux bílar og kláruðu þeir allir keppnina, í öðru, tíunda, ellefta og fimmtánda sæti. Flottur árangur það.

Mercedes-Benz með lítinn sendibíl

Mercedes-Benz hefur nú sett á markað nettan sendibíl sem fengið hefur nafnið Citan, þann minnsta sem ber nafn Mercedes Benz. Citan er afrakstur samstarfs Mercedes Benz og Renault-Nissan því þessi bíll er í raun sami bíllinn og Renault Kangoo, sem vel þekktur er hér á landi. Citan er ætlað það hlutverk að efla sölu Mercedes-Benz enn frekar í atvinnubílum en Daimler AG, framleiðandi Mercedes-Benz, er stærsti framleiðandi atvinnubíla í heiminum í dag. Fyrir er þýski framleiðandinn með þónokkra línu sendibíla, s.s. Vario, Sprinter og Vito. Sprinter hefur verið talsvert vinsæll sendibíll hér á landi. Citan verður í boði með eyðslugrönnum dísil- og bensínvélum sem allar státa af lágri koltvísýringslosun. Citan má fá með Blue EFFICIENCY búnaði eins og lúxusbílar Mercedes-Benz eru boðnir en búnaðurinn eykur á sparneytni bíla og minnkar útblástur skaðlegra lofttegunda. Citan verður boðinn í fleiri útgáfum en sem sendibíll og má einnig fá hann sem fjölnotabíl. Hann fæst í mismunandi lengd og hæð og býður því upp á marga notkunarmöguleika. Nýr Mercedes-Benz Citan kostar frá 3.590.000 kr. með vsk. hjá söluaðila bílsins hér á landi, Öskju. Bíllinn verður frumsýndur í Öskju nk. laugardag 26. janúar kl. 12-16.

Biscúter eftirstríðsáranna

Í hráefnisþurrð áranna eftir seinni heimsstyrjöldina var enn meir þörf fyrir smábíla í Evrópu en hún er í dag. Stál, gúmmí, eldsneyti og allslags hráefni til smíði bíla var af skornum skammti. Þá þýddi ekki að halda áfram smíði stórra orkufrekra bíla til að komast leiðar sinnar. Á þessum tíma voru framleiddir ýmsir áhugaverðir agnarsmáir bílar í álfunni, eins og Isetta og Goggomobile, sem nú eru verðmætir söfnunargripir. Spánverja létu ekki sitt eftir liggja við smíði agnarsmárra bíla og þó svo þessi Biscúter sem sést hér að ofan hafi ekki orðið eins þekktur og hinir tveir, var hann athyglivert framlag Spánverja til smíði smárra bíla og hann seldist ágætlega. Hann varð reyndar svo vinæll á Spáni að hann var kallaður Bjalla Spánverjans af Þjóðverjum og Mini Spánverjans af Bretum. Sjálfir kölluðu þeir hann “Zapatilla”, eða “litli skór”. Það var Frakkinn Gabriel Voisin sem teiknaði Biscúter, sem hann reyndar kallaði “Biscooter” og hafði þá merkingu að vera um það bil á stærð við tvo “scooter”. Enginn hafði áhuga á hönnum Voisin í heimalandinu og svo fór að hann seldi hana til spænsks bílaframleiðanda, Autonacional S.A. í Barcelona sem hóf strax framleiðslu Biscúter, árið 1953. Bíllinn var með 0,2 lítra eins strokks vél, 9 hestafla og framhjóladrifinn, en það skrítna var að aðeins annað framhjólið fékk afl frá vélinni. Skiptingin var þriggja gíra. Bíllinn hafði ýmsa athygliverða kosti, svo sem sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, undirvagn úr áli og svo var hann blæjubíll. Blæjuna mátti fjarlægja með fáum handtökum. Biscúter var framleiddur örlítið fram á sjöunda áratuginn, alls um 12.000 bílar. Hann tapaði vinsældum sínum af sömu ástæðu og aðra smábílar álfunnar, einkum vegna bætts efnahags og betra aðgengis hráefna. Bílar tóku að stækka og verða dýrari, en kaupendur höfðu efni á því. Mjög fáir Biscúter bílar eru til í dag sem gera hann að einum eftirsóknarverðasta söfnunargrip meðal smábíla.

Batmobile fór á 596 milljónir

Hinn upprunanlegi Batmobile seldist á uppboði í Bandaríkjunum í gær fyrir 4.620.000 dollara, eða tæpar 600 milljónir króna. Bíllinn er frá árinu 1966. Seljandinn er sá sem breytti þessum Lincoln Futura Concept í Batmobile fyrir Batman sjónvarpsþætti og leikarinn Adam West ók um á í Gotham og eltist við illmenni. Eigandinn heitir George Barris og hefur átt bílinn alveg frá upphafi. Hann keypti Lincoln bílinn af Ford, sem framleiðir Lincoln bíla, árið 1965 á 1 dollar, hvernig sem hann fór að því. Hann hefur því ávaxtað pund sitt vel, eða dollar öllu heldur og næstum fimm milljónfaldað hann. Hann fer því vafalaust hlæjandi í bankann á morgun og leysir út tékkann stóra. Bíllinn seldist á Barrett-Jackson bílauppboðinu í Scottsdale í Arizona. Lincoln bíllinn er af árgerð 1955 og er einmitt með réttu stílhrifin af bílum þess tíma, ógnarstór og með "vængi“. Barris fékk aðeins þrjár vikur og 15.000 dollara til þess að breyta bílnum árið 1965 fyrir tökur á Batmanþáttunum og tókst bara ágætlega til.

Verkfall í Belgíu skaðar Ford

Áætlanir Ford að loka verksmiðju sinni í Genk í Belgíu á næsta ári leiddu til þess að starfsmenn hafa lagt niður vinnu í 3 mánuði og enginn bíll hefur komið frá verksmiðjunni frá því 24. október. Í verksmiðjunni voru smíðaðir Ford Mondeo, S-Max og Galaxy. Ford hefur ekki ennþá tekist að semja við starfmennina og verkalýðsfélag þeirra og ítrekuð tilraun þeirra í síðustu viku bar engan árangur. Hamlar þetta verulega afhendingu á þessum bílgerðum. Ford ætlar líka að loka verksmiðju sinni í Southampton í Bretlandi og með því fækkar starfsmönnum Fod um 6.200 starfmenn eða um 13% starfsmanna Ford í Evrópu. Eru þetta viðbrögð Ford við minnkandi sölu bíla þeirra í álfunni og viðleitni þeirra til að stöðva viðvarandi tap fyrirtækisins þar. Stefnir í að Ford tapi 193 milljörðum króna árin 2012 og 2013 á rekstri sínum í álfunni. Ef allt væri eðlilegt í Genk væru þar framleiddir 1.000 bílar á dag.

Níu gíra sjálfskiptingar hjá Chrysler

Þrjár gerðir Chrysler bíla fá 9 gíra sjálfskiptingar í ár og verða slíkar skiptingar settar í 200.000 bíla strax á þessu ári. Bílgerðirnar eru Chrysler 200, Dodge Dart og Jeep Liberty, en Dodge og Jeep merkin eru hluti af Chrysler. Verður Jeep Liberty fyrstur hann bílanna til að fá þessa nýja fjölgíra skiptingu og verður hann strax til sölu á öðrum ársfjórðungi. Svo margra gíra sjálfskipting er nýlunda í ódýrari gerðum bíla, en hún á stuðla að minnkandi eyðslu þeirra. Chrysler er í eigi Fiat og forstjóri Fiat segir að þessi sjálfskipting sé framtíðin fyrir framhjóladrifna og fjórhjóladrifna bíla fyrirtækisins. Chrysler gekk mjög vel á liðnu ári og seldi 1,65 milljón bíla og jók söluna um 21%. Það er annað en hægt er að segja um móðurfyrirtækið Fiat sem seldi færri bíla en árið á undan. Ekki kemur fram hvort til standi að þessar 9 gíra sjálfskiptingar verði einnig settar í bíla Fiat.

Sýnishorn úr næstu þáttaröð Top Gear

Eftir heilt ár án nýrra þátta af Top Gear er nú ekki nema vika í að nýjasta þátttaröð breska þríeykisins hefjist á BBC 2. Til að auka spennuna hefur BBC útbúið örlítið brot úr þáttunum blandað viðbrögðum þeirra kvenna sem sjá um fataþvott þáttastjórnendanna. Í myndskeiðinu sést Jeremy Clarkson flýja skothríð orustuflugvélar á Lexus LFA, Richard Hammond gera heiðarlega tilraun til að eyðileggja Subaru WRX í hitabeltisskógi og alla þáttastjórnendurna leika risarúbbý á ódýrum bílum.

Tíu ódýrustu 400 hestöflin

Um marga kosti er að ræða fyrir bílkaupendur þegar kemur að mjög öflugum bílum í Bandaríkjunum. Ef kröfurnar eru settar við 400 hestöfl eru þeir samt margir og nokkrir þeirra ekki óviðráðanlegir fyrir venjuleg veski. Hér er listi sem bílatímaritið Automobile tók saman um ódýrustu kostina er kemur að bílum yfir 400 hestöfl. 1. Ford Mustang GT: 412 hestöfl Mustang GT er ódýrasti bíllinn sem nær þessari hestaflatölu, er á 31.545 dollara eða 4.070.000 kr. Hann er með 5,0 lítra V8 vél og er afturhjóladrifinn. Sex gíra beinskipting eða sex gíra sjálfskipting er í boði. Það fást ekki ýkja merkilegir né öflugir bílar á Íslandi fyrir 4 milljónir og eru Bandaríkjamenn öfundsverðir að þurfa ekki að leggja út meira fé fyrir svo öflugan og flottan bíl.

Nýr Suzuki Grand Vitara

Suzuki Grand Vitara hefur lengi verið einn af eftirsóttari jeppunum í sínum stærðarflokki á Íslandi og af honum seldust 140 bílar í fyrra. Um helgina verður hann frumsýndur í nýrri gerð hjá Suzuki bílum í Skeifunni.

Tesla mælist 386 hestöfl á Dyno-mæli

Áreiðanlegasta aðferðin við að finna út raunverulegt afl bíla er ekki að lesa sölubæklinginn heldur skella bílnum á Dyno-mæli sem mælir nákvæmlega það afl sem hjólin skila á rúllurnar sem hann stendur á. Vitað var að rafmagnsbíllinn Tesla Model S væri ansi öflugur bíll, en það var staðfest með þessari aðferð Mældist mesta afl hans 386 hestöfl við um 90 km hraða. Það sem vekur enn meiri athygli að rétt eftir kyrrstöðu skilar rafmótorarnir 300 hestöflum til hjólanna. Það þarf því ekki að bíða lengi eftir aflinu. Við 210 km hraða eru hestöflin komin niður í 220. Tesla fyrirtækið fullyrðir í sölulista að Model S sé 416 hestöfl, en mælingin sýnir að það skortir 30 hestöfl á. Rétt skal vera rétt. Á myndbandinu sést Model S við Dyno mælingu.

Volkswagen og BMW spáð mestum vexti

Könnun KMPG sem gerð var meðal hátt settra stjórnenda bílaframleiðslufyrirtækjanna bendir til að Volkswagen og BMW sé líklegust til að auka hlutdeild sína á bílamarkaðnum í heiminum næstu 5 árin. Þetta er fjórtánda árið í röð sem KPMG spyr um 200 stjórnendur í bílafyrirtækjunum að því hvaða fyrirtæki eru líklega til að auka eða tapa hlutdeild á næstu 5 árum. Efst á listanum trónir Volkswagen, en 81% þeirra hafa trú á vexti þess, 3% að hún muni minnka og 16% að hún muni standi í stað. Í öðru sæti er BMW með 70% trú á vexti og 5% trú á minnkun. Er þetta fyrsta skiptið sem BMW nær svo hátt á listanum. Athygli vekur að neðstu fyrirtækin á listanum er japönsku framleiðendurnir Suzuki, Mazda, Mitsubishi og Subaru. Allt aðra sögu er að segja af Toyota, en það er í fjórða sæti.

Skoda nálgast milljón bíla á ári

Tékkneski bílaframleiðandinn Skoda seldi 939.200 bíla á síðasta ári og búast má við að takmarkinu um milljón bíla sölu náist á þessu ári. Skoda jók söluna um 6,8% í fyrra og ef sami vöxtur kemur til á þessu ári nær Skoda markmiði sínu. Ekki ætti að saka að bráðlega mun Skoda kynna nýja kynslóð af vinsælasta bíl sínum, hérlendis sem annarsstaðar, Skoda Octavia. Octavia seldist í 410.000 eintökum í fyrra. Næstsöluhæsta bílgerð Skoda var Fabia með 240.000 eintök, þá Superb með 109.000, Yeti 87.000, Roomster 38.000, Rapid 25.000 og Citigo með 30.000 eintök en sá bíll kom nýr á seinni hluta ársins. Til marks um góðan árangur Skoda á síðasta ári þá var 3% vöxtur í sölu Skoda bíla í vesturhluta Evrópu þó svo að um verulega minnkun heildarsölu þar hafi verið að ræða. Sterkast eini markaður Skoda er þó í Kína, en þar seldi Skoda 236.000 bíla og jókst salan um 7,1%. Sala Skoda bíla í Bretlandi jókst um 17,6% og metsala var einnig í Austurríku, Sviss og Danmörku. Á Íslandi seldust 689 Skoda bílar í fyrra sem var 8,7% af bílasölumarkaðinum og líklega hæsta markaðshlutdeildin utan heimalandsins Tékklandi. Salan jókst um 48% frá 2011.

Aston Martin 100 ára

Breski lúxusbílaframleiðandinn Aston Martin er 100 ára í ár og heldur uppá afmælið meðal annars með afmælisútgáfum af flestum sínum bílgerðum. Framleiddir verða 100 bílar af hverri gerð Vantage, DB9, Rapide og Vanquish í sérstakri afmælisútgáfu. Bílarnir verða merktir í númararöð og í hverjum bíl verður skjöldur sem tiltekur raðnúmer hans. Bílarnir fá sérstakt lakk og að innan verða þeir með svipaða leðurinnréttingu og er í Aston Martin One-77 Volante, með stöguðu leðri og silfurtvinna. Að öðru leiti er bílarnir eins og hefðbundnu bílgerðirnar. Bílunum fylgja allrahanda smágjafir, svo sem tvö Bang & Olufssen heyrnatól, tveir bíllyklar úr gleri, ermahnappar, pennar úr silfri og fleira glingur sem allt er merkt Aston Martin. Vafalaust höfða þessir bílar til margs efnameira fólks og bílasafnara en fyrir þá þarf að greiða meira en fyrir venjulega Aston Martin bíla. Lionel Martin og Robert Bamfors stofnuðu Bamford og Martin árið 1913, en nafnið breyttist í Aston Martin ári seinna eftir sigur bíls þeirra í Aston Clinton Hillclimb klifurkeppninni.

Bílaframleiðendur flýja Íran

Hver bílaframleiðandinn á fætur öðrum flýr nú Íran og ástæðan sú að þeir vilja ekki tengja nafn sitt við ríki sem ógnar heiminum með kjarnorkutilraunum sínum sem enginn veit í hvaða tilgangi er. Síðustu bílaframleiðendurnir til að draga sölu sín frá Íran eru lúxusbílaframleiðendurnir Lamborghini og Maserati. Áður hafa Daimler-Benz, Toyota, Porsche, Hyundai, Fiat og PSA Peugeot-Citroen dregið sig út úr landinu og selja ekki bíla sína þar. Það þrengir því að bílakostum þeim er íbúar Íran geta valið um og aldrei að vita hvort allir aðrir framleiðendur fygli í kjölfarið.

Renault og Fiat segja upp starfsfólki

Renault áformar að segja upp 7.500 starfsmönnum í bílaverksmiðjum í heimalandinu fyrir árið 2016. Sú aðgerð á að duga til að koma fyrirtækinu á núllpunkt í rekstri, en mikið tap hefur verið á rekstri Renault undanfarið. Renault er nauðugur einn kostur en við blasir að árið í ár verði sjötta árið í röð þar sem bílasala í Evrópu minnkar. Gangi þessi niðurskurður eftir nemur hann 14% af starfsfólki Renault í Frakklandi í dag en 128.000 vinna fyrir Renault um allan heim. Ekki stendur til að loka neinni af verksmiðjum Renault. Fiat hefur einnig biðlað til itölsku ríkisstjórnarinnar um heimild til að skera umtalsvert niður í bílaverksmiðjunni í Melfi á næstu tveimurn árum svo undirbúa megi hana fyrir smíði margra nýrra bíla sem Fiat mun kynna til ársins 2016. Fiat samstæðan áætlar að kynna 19 nýja bíla til ársins 2016, þar af 9 Alfa Romeo og 6 Maserati bíla. Áætlanir Fiat ganga út það af framleiða 2 milljónir bíla í Evrópu árið 2016, en þeir voru aðeins 1,25 milljón í fyrra. Fiat hefur ekki selt eins fá bíla og það gerði í fyrra frá árinu 1979.

Heimsókn í sérstæða bílaverksmiðju

Ein sérstakasta bílaverksmiðja heims var heimsótt um daginn af visir.is. Þar eru dýrasti bíll Volkswagen handsmíðaður, þ.e. forstjórabíllinn Volkswagen Pheaton fyrir augunum á mýmörgum gestum sem þangað koma. Verksmiðjan er öll byggð úr stáli og gleri og er því gegnsæ. Þangað koma gjarnan líka kaupendur bílanna og taka þátt í smíði eigin bíls í einn dag og svo aftur þegar bíllinn er tilbúinn til afhendingar. Í meðfylgjandi myndskeiði er einnig fjallað um minnsta bíl Volkswagen, up! Sjón er sögu ríkari.

Go-kart braut í Guantanamo

Er það nema von að hernaðarbrölt Bandaríkjamanna kosti skildinginn þegar byggð er Go-kartbraut fyrir starfsmenn fangelsins í Guantanamo á Kúbu. Þannig er það nú samt. Brautin kostaði 52 milljónir króna enda miklu til fórnað að fangelsisstarfsmenn geta gert eitthvað skemmtilegt milli þess sem þeir gæta pólitískra fanga. Frá árinu 2001 hafa framkvæmdir við Guantanamo herstöðina og fangelsið kostað bandarísku þjóðina tvo milljarða bandaríkjadala, eða 260 milljarða króna. Í því ljósi er kostnaðurinn við Go-kart brautina dropi í hafi. Kostnaðurinn við Go-kart brautina er ekki eini kostnaðarliðurinn sem fengið hefur grínaktuga umfjöllun, en 32 milljónum króna var varið í að byggja blakvöll, 400 milljónum í byggingu leikvölls og 900 milljónum í endurnýjun á Starbucks kaffihúsi, svo eitthvað sé nefnt.

Forstjóri Nissan segir tapaða hlutdeild bara hiksta

Honum er sjaldan orðavant forstjóra Nissan, Carlos Ghosn þó svo að Nissan hafi tapað markaðshlutdeild í Bandaríkjunum og að Nissan stefni ótrautt að 10% markaðshlutdeild þar árið 2016. Hún féll úr 8,2% 2011 í 7,9% í fyrra. Það er reyndar fyrsta árið frá 2006 sem fyrirtækið tapar hlutdeild þar vestra. Nissan og lúxusmerki þeirra Infinity seldi 1,14 milljón bíla í Bandaríkjunum í fyrra. "Aðeins eitt ár með tapaðri hlutdeild er eins og og nettur hiksti og ég hefði fyrst áhyggjur ef það gerðist tvö ár í röð“, sagði Ghosn. Ghosn nefndi tveir helstar ástæður fyrir lækkaðri markaðshlutdeild. Nokkrir af bílum Nissan sem til sölu voru hefðu verið að enda sitt skeið og nýjar kynslóðir þeirra litu brátt dagsins ljós og að japanskir keppinautar þeirra hefðu verið lengur að jafna sig en Nissan eftir jarðskjálftann stóra 2011 og því hefðu þeir notið meiri vaxtar 2012.

Sjá næstu 50 fréttir