Viðskipti erlent

Andlát Mærsk Möller er hvalreki fyrir ríkissjóð Danmerkur

Andlát danska auðjöfursins Mærsk McKinney Möller er hvalreki á fjörur ríkissjóðs Danmerkur.

Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að erfðaskatturinn sem þrjár dætur Möller koma til með að greiða verði um 3 milljarðar danskra króna eða um 67 milljarðar króna. Þá er miðað við að persónuleg auðæfi Möller hafi numið um 20 milljörðum danskra króna en 15% erfðaskattur er greiddur í Danmörku.

Raunar var auður Möller mun meiri eða vel yfir 100 milljarðar danskra króna en þá er tekið tillit til þeirra fjölskyldusjóða sem halda utan um eignarhaldið á Mærsk skipafélaginu. Dæturnar munu hinsvegar ekki greiða erfðaskatt af þessum sjóðum.

Sjóðir þessir verða áfram í eigu fjölskyldunnar og er stjórnað af meðlimum hennar. Samanlagt fara sjóðirnir með 54% hlut í Mærsk skipafélaginu og er verðmæti þess hlutar nú 105 milljarðar danskra króna samkvæmt gengi hlutabréfanna í dönsku kauphöllinni.


Tengdar fréttir

Mærsk McKinney Möller er látinn

Danski auðjöfurinn Mærsk McKinney Möller eigandi eins af stærstu skipafélögum heimsins er látinn, 98 ára að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mærsk skipafélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×