Innlent

Sakar Bjarna um lygar

Sigurjón Þórðarson þingmaður frjálslyndra vænir félaga sína í allsherjarnefnd um ósannindi í umræðum um veitingu ríkisborgararéttar til tilvonandi tengdadóttur umhverfisráðherra. Formaður nefndarinnar segir fullyrðingar Sigurjóns rakalausar dylgjur.

Í pistil á heimasíðu sinni í dag sem ber yfirskriftina "Bjarni Benediktsson segir ósatt." sakar Sigurjón Bjarna um að hafa farið með ósannindi þegar hann neitaði að hafa vitað um tengsl Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra við unga konu sem Alþingi veitti ríkisborgararétt á dögunum. Hann fullyrðir jafnframt að þau Guðrún Ögmundsdóttir og Guðjón Ólafur Jónsson, félagar hans í nefndinni hafi líka talað gegn betri vitund í samtölum við fjölmiðla um málið.

Sigurjón bætir því við að hann hafi sem fulltrúi í allsherjarnefnd sótt um að sjá gögnin sem lágu ákvörðuninni til grundvallar en verið synjað og það sé að sínu mati lögbrot. Í samtali við fréttastofu í dag ítrekaði Bjarni Benediktsson að óeðlilegt væri að fjalla um mál einstakra umsækjenda enda um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Sá háttur hafi verið hafður á að hafa þverpólitískt samráð um afgreiðsluna í undirnefnd allsherjarnefndar. Bjarni segir því allar fullyrðingar um að staðið hafi verið óeðlilega hafi verið órökstuddar og standist enga skoðun. Orð Sigurjóns séu því rakalausar dylgjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×