Körfubolti

LeBron tjáir sig loksins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
LBron James.
LBron James. Nordic Photos/Getty Images

LeBron James er loksins búinn að opna sig eftir að lið hans, Cleveland Cavaliers, féll úr leik gegn Orlando í úrslitum Austurdeildar í NBA-körfuboltanum.

James stormaði út úr salnum eftir síðasta leikinn og tók ekki í hendur félaga síns úr Ólympíuliðinu, Dwight Howard, né óskaði nokkrum leikmanni Orlando til hamingju. Hann sagðist þó hafa sent Howard tölvupóst og óskað honum til hamingju.

„Það er erfitt fyrir mig að óska einhverjum til hamingju eftir að hafa tapað. Ég er sigurvegari og þetta snýst ekkert um að vera með óíþróttamannslega hegðun. Ef einhver lemur þig þá ertu ekkert að fara að óska honum til hamingju. Mér finnst það hálfvitalegt. Ég er keppnismaður," sagði James sem segist vera ánægður með Cleveland í vetur.

„Mér líður vel og er mjög ánægður með það sem við höfum verið að gera hér í vetur. Maður vill sjá lið taka framförum og það gerðist. Ég tel þetta lið geti gert enn betur á næsta ári," sagði James.

Mikið hefur verið skrifað og skrafað um framtíð James sem á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Cavs. Félagið getur boðið honum nýjan samning þann 18. júlí en James vildi ekkert gefa upp um hvort hann ætlaði sér að gera nýjan samning við Cleveland.

„Ég veit það ekki. Ég hef ekkert hugsað um það enn þá. Nú ætla ég að fara í frí án þess að hugsa um samninga eða körfubolta á meðan. Svo skoða ég málið," sagði James að lokum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×