Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Hafnarfirði var ránið hrottafengið eins og sjá má á upptökum úr öryggismyndavélum verslunarinnar. Mennirnir voru grímuklæddir, með öxi á lofti og ógnuðu starfsmanni á sextugsaldri sem komst undan á flótta. Starfsmanninn sakaði ekki en var mjög brugðið. Myndbandið er mjög sláandi að sögn lögreglu.

Að ráninu loknu stukku mennirnir í hvítan Nissan jeppling, brunuðu yfir grasbala og yfir á Hringbrautina. Hámarkshraði í götunni er 30 kílómetrar á klukkustund en vitni segja að um ofsaakstur hafi verið að ræða. Mildi var að ekki varð líkamstjón þegar jepplingurinn ók á aðra bifreið með fólk innanborðs.
Um hálftíma síðar fannst jepplingurinn mannlaus á bílastæði við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.
Lögregla óskar eftir aðstoð frá almenningi sem mögulega varð vitni að akstri bifreiðarinnar frá Hringbraut og að Grindavíkurafleggjaranum. Allar upplýsingar eru vel þegnar, hvort sem þær snúa að akstri bifreiðarinnar, akstursleið, bifreiðinni, ökumanni eða farþegum í bílnum.
Sömuleiðis ef fólk varð vart við tjón á bílum sínum í gær þá má mögulega rekja það til aksturs jepplingsins. Hann er talinn stolinn en hann var á röngum skráningarnúmerum.
Best er að hafa samband í gegnum Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sjá hér.

Málið teygir anga sína víða samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og koma fíkniefni við sögu. Lögreglumenn á Suðurnesjum og sérsveitarmenn komu að málinu í gær og handtóku annan mannanna í Keflavík seint í gærkvöldi. Maðurinn varð á vegi lögreglu, reyndi að flýja á hlaupum og skaut úr loftbyssu í átt að lögreglumönnum af skömmu færi.
Rannsókn málsins er í fullum gangi og var unnið að því fram á nótt en verðmæti þýfisins er töluvert og nemur milljónum króna. Auk starfsmannsins í Gullsmiðjunni urðu almennir borgarar fyrir mjög ógnandi hegðun af hendi ræningjunum.
Allar ábendingar er varða ránið og akstur hvíta Nissan-jepplingsins frá Lækjargötu í Hafnarfirði, eftir Hringbraut og að Grindavíkurafleggjaranum við Reykjanesbraut óskast sendar á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Rannsókn málsins er í fullum gangi og húsleitir fyrirhugaðar í dag.