Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir syntu báðar á fyrri degi Einvígisins í lauginni í Indianapolis.
Eygló, sem vann á dögunum til tveggja bronsverðlauna á EM í 25 metra laug í Ísrael, keppti í 200 metra baksundi og kom í bakkann á 2:06,01 mínútum, sem er talsvert frá Íslandsmeti hennar (2:02,53 mín.).
Eygló endaði í 6. sæti af sex keppendum en hin ungverska Katinka Hosszu varð hlutskörpust á tímanum 1:59,75 mínútum. Hosszu þessi á heimsmetið í 200 metra baksundi og vann til gullverðlauna í greininni á EM í síðustu viku. Alls vann Hosszu sex gullverðlaun á EM í Ísrael.
Hrafnhildur keppti í 200 metra bringusundi og kom í bakkann á 2:23,19 mínútum. Hún var aðeins hálfri sekúndu frá Íslandsmeti sínu sem er 2:22,69 mínútur.
Hrafnildur endaði í 6. sæti af jafnmörgum keppendum en hún verður aftur á ferðinni í dag þegar hún keppir í 100 metra bringsundi.
Melaine Margis frá Bandaríkjunum bar sigur úr býtum í 200 metra bringusundinu á tímanum 2:18,35 mínútum.

