Innlent

Kvíðanum viðhaldið með því að forðast óvissuaðstæður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sóley Dröfn Davíðsdóttir segir að til þess að fólk geti losnað við almennan kvíða þurfi það að sækja í aðstæður þar sem það hefur ekki fulla stjórn.
Sóley Dröfn Davíðsdóttir segir að til þess að fólk geti losnað við almennan kvíða þurfi það að sækja í aðstæður þar sem það hefur ekki fulla stjórn. vísir/anton
Almenn kvíðaröskun er mjög vangreindur vandi, segir Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni.

Ástæðan sé sú að kvíði einkennist af mörgum líkamlegum einkennum og fólk leiti þá ráða við þessum líkamlegu einkennum. Í sumum tilfellum leiti fólk sér hefðbundinna og óhefðbundinna ráða án þess að alltaf sé ráðist að rótum vandans. „Þannig að fólk er sjaldnast að fá fullnægjandi meðferð,“ segir Sóley Dröfn.

Sóley bendir á að nýlegar rannsóknir gefi til kynna að fólk með kvíða hafi minna óvissuþol en aðrir. Þar ber hæst rannsóknir Melisu Robichaud og Michel Dugas frá Kanada, en Melisa hélt nýverið námskeið fyrir íslenska sálfræðinga um meðhöndlun vandans.

Rannsóknir þeirra benda til að óhóflegar áhyggjur séu tilraun til að draga úr óvissu. Þeir sem hafa miklar áhyggjur hafi í grunninn lágt óvissuþol, það er að segja neikvæðar hugmyndir um óvissu. Þeir telji að óvissan hafi eitthvað slæmt í för með sér sem þeir muni ekki ráða við. Og þeir sem hafa minnst óvissuþol glíma við almenna kvíðaröskun. Hún einkennist af þrálátum áhyggjum og fylgja áhyggjunum iðulega spenna, þreyta, eirðarleysi, einbeitingarerfiðleikar og svefntruflanir.

Áætlað er að 6 prósent fólks glími við almenna kvíðaröskun um ævina og er vandinn helmingi algengari á meðal kvenna. Nýjar meðferðir snúast því um það að fólk með almennan kvíða er látið sækja meira í óvissuna. Til dæmis að fara illa undirbúinn og keyra út í bláinn. Þannig geti fólk lært að það þurfi ekki að hræðast óvissuna. „Það sem fólk gerir venjulega, ef það hefur þá hugmynd að það höndli ekki óvissu, er að það reynir að vera með allt á hreinu til að ekkert komi á óvart,“ segir Sóley.

Fólk reyni að skipuleggja allt, stjórna öllu og vera vanafast. En með því að skipuleggja aðstæðurnar sé verið að halda óvissuþolinu lágu. „Þess í stað ætti fólk að skora sjálft sig á hólm; að sækja í tvíræðar aðstæður. Til dæmis óvissuferðir og hendast af stað án þess að undirbúa sig. Bara til að sjá að það höndli aðstæður,“ segir Sóley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×