Innlent

Karl Garðarsson svekktur út í Sigmund: „Hann ræddi ekki við mig allavega“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. vísir/gva
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er ekki sáttur við þá stöðu sem komin er upp en formaður flokksins og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fundaði með forseta Íslands, á Bessastöðum eftir athyglisverða Facebook-færslu fyrr í dag.

Karl sagði í viðtali við RÚV í hádeginu að það væri hans skoðun að ríkisstjórnin ætti að sitja áfram. Sigmundur Davíð hefði notið trausts en þingmenn hefðu litið svo á að hann þyrfti að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Þingflokksfundur Framsóknarflokksins stendur nú yfir. Karl segir flokkana tvo hafa unnið mörg góð verk og leggja ætti áherslu á að ljúka þeim verkum sem þegar eru hafin.

„Þetta kom mér svolítið á óvart,“ segir Karl um Facebook-færslu Sigmundar Davíðs í dag þar sem hann sagðist tilbúinn að rjúfa þing nyti flokkurinn ekki lengur stuðnings þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

„Staðan núna er mjög óljós og við þurfum að fá skýringar frá Sigmundi um hvað býr að baki hjá honum.“

Karl segir að hann hefði gert hlutina öðruvísi en Sigmundur. Aðspurður hvort hann væri ósáttur sagði Karl að Sigmundur hefði átt að ræða við þingflokkinn fyrst.

Einar Þorsteinsson, fréttamaður RÚV, gekk á Karl og spurði hvort Sigmundur hefði ekkert rætt við þingflokkinn eftir fundinn með Bjarna og fyrir Facebook-skrifin?

„Ekki við mig allavega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×