Þrátt fyrir að vera enn sigurstranglegust samkvæmt sérstöku reiknilíkani FiveThirtyEight hafa sigurlíkur Clinton hrunið frá því að FBI gaf út að það væri að rannsaka nýja tölvupósta frá tíð hennar sem utanríkisráðherra. Nú rúmlega einum degi áður en að kosningarnar fara fram segir FiveThirtyEight að sigurlíkur Clinton séu 64 prósent gegn 36 prósentum Donald Trump, um 20 prósentustiga sveifla á tveimur vikum.

Án Flórída er nær ómögulegt að Trump geti sigrað
Fastlega má reikna með að Trump muni að minnsta kosti fá um 180 kjörmenn frá ríkjum á borð við Texas, Montana, Alaska, Alabama, Indiana og átján öðrum ríkjum sem sjá má á kortinu hér fyrir neðan. Í öllum þessum ríkjum eru yfirgnæfandi líkur á sigri Trump.
Fyrir utan þessi ríki þarf Trump án vafa að næla í sex kjörmenn Iowa, átján kjörmenn Ohio og ellefu kjörmenn Arizona. Skoðanakannanir benda til þess að þessi ríki hallist að Trump en Iowa og Ohio eru svokölluð „Swing-states“ þar sem stuðningur kjósenda sveiflast á milli forsetakosninga.
Sjá einnig: Hitti skömmustulega Bandaríkjamenn í DC tveimur dögum fyrir kosningar
Takist Trump að næla sér í sigur í þessum ríkjum er talan kominn upp í 215 kjörmenn, enn talsvert fjarri þeim 270 sem þarf til. Þar kemur Flórída til sögunnar. Þar eru 29 kjörmenn undir sem gerir ríkið það mikilvægasta af sveifluríkjum kosninganna í ár. Þar er staðan hins vegar nánast hnífjöfn samkvæmt áðurnefndu reiknilíkani FiveThirtyEight sem metur sigurlíkurnar 46-53 prósent Trump í vil.

Leiðin er þó langt í frá greið fyrir Trump takist honum að sigra í Florída, hann þarf einnig að vinna annað sveifluríki, Norður-Karólínu, þar sem afar mjótt er á milli Trump og Clinton, líkt og í Flóría. Þar leynast 15 kjörmenn og Trump því kominn með 259 kjörmenn.
Sjá einnig: FBI dregið inn í hringiðu stjórnmála
Þaðan þarf Trump að finna sér ellefu kjörmenn í viðbót sem verður afar erfitt fyrir hann. Hann þarf án vafa að tryggja sér sigur í 1-2 af þeim sveifluríkjum sem nú eru talin örugg í höndum Clinton. Þessi ríki eru Michigan, Wisconsin, Virginía, Colorado, Pennsylvanía og New Hampshire. Svo örugg er Clinton um sigur í þessum ríkjum að þau eru nefnd eldveggur hennar. Nafnið kemur til vegna þess að hún þarf í raun ekki að sigra í öðrum sveifuríkjum tryggi hún sér sigur í þessum sex ríkjum.
Helstu möguleikar Trump á þessum ellefu kjörmönnum eru taldir liggja í Michigan þar sem kannanir sýna að Trump hefur sótt vel á. Sextán kjörmenn eru þar í boði sem myndi koma Trump í 275 kjörmenn gangi það eftir sem hér hefur verið útlistað.
Leið Trump að sigri lítur því nokkurn veginn svona út fyrir utan þau ríki sem hallast nær örugglega að Trump: Ohio, Iowa, Arizona, Flórída, Norður-Karólína og Michigan. Ljóst er þó að á brattann er að sækja fyrir Trump fyrir kosningarnar sem fara fram aðfaranótt miðvikudags að íslenskum tíma.