Fótbolti

Leik Dortmund og Monaco frestað vegna sprengjuárásar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rútan varð mögulega fyrir sprengjuárás.
Rútan varð mögulega fyrir sprengjuárás. vísir
Marc Bartra, miðvörður þýska 1. deildar liðsins Borussia Dortmund, er á leið á sjúkrahús eftir að þrjár sprengjur sprungu við liðsrútu Þjóðverjanna á leið á Signal Iduna-völlinn þar sem þeir áttu að mæta Monaco í Meistaradeildinni í kvöld.

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta leiknum til klukkan 16.45 á morgun.

Dortmund-liðið greindi sjálft frá því á Twitter að „atvik“ átti sér stað þar sem einn slasaðist en sagði ekki meira en það til að byrja með. Lögreglan í Dortmund staðfesti svo á Twitter-síðu sinni að sprengja sprakk í um tíu mínútna fjarlægð frá vellinum við hótel liðsins.

Í frétt á vefsíðu þýska blaðsins Bild er fullyrt að sprengjunni hafi verið komið fyrir á veginum og hún sprengd þegar rúta Dortmund-liðsins keyrði yfir hana. Sem fyrr segir slasaðist Marc Bartra og hefur verið staðfest að hann er á leið á spítala til að gera að sárum hans. Þau eru þó ekki alvarleg.

Atburðarásin eftir fyrstu fréttir var svona:

18:07: Dortmund staðfestir nú á Twitter-síðu sinni að sprengja sprakk við rútu liðsins þegar hún var að fara af stað frá hótelinu. Leikmenn eru á öruggum stað og allir eru óhultir sem eru mættir á völlinn.

18.15: Svo virðist sem það sé í lagi með Marc Bartra samkvæmt enska blaðamanninum Ed Mylon. Hans fólk hefur gefið út að í lagi er með Spánverjann. Það gæti verið að þessi sprengja hafi verið stór flugeldur.

18.17: Tekin verður ákvörðun um hvort leikurinn fari fram um 18.30. Bartra var meiddur á hendi og svo virðist sem ástandið sé ekki jafn slæmt og haldið var í fyrstu.

18.32 Leiknum hefur verið frestað til morguns.

19:02: Að því er fram kemur á vef BBC sprungu þrjár sprengjur við rútu liðsins. Rúður brotnuðu í rútunni við sprengingarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×