Enski boltinn

Lacazette verður sá dýrasti í sögu Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexandre Lacazette skorar og skorar.
Alexandre Lacazette skorar og skorar. vísir/getty
Franski framherjinn Alexandre Lacazette gengur í raðir Arsenal í dag eða á morgun en þetta staðfestir Jean-Michel Aulas, forseti Lyon.

Samningaviðræður félaganna hafa staðið yfir í nokkrar vikur en Lyon hafnaði fyrsta tilboði Arsenal sem hljóðaði upp á 39 milljónir punda.

Talið er að Arsenal borgi 43,8 milljónir punda fyrir franska markahrókinn sem þýðir að hann verður dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Mest hefur félagið borgað 42,5 milljónir punda fyrir Mesut Özil fyrir fjórum árum síðan.

„Salan á Alexandre Lacazette til Arsenal ætti að ganga í gegn í dag eða á morgun. Þessar 67 milljónir evra sem fjölmiðlar töluðu um fyrst er út úr korti. Þetta verður sala upp á 45-50 milljónir evra,“ segir Aulas við franska miðilinn Le Progres.

„Þetta verða dýrustu kaup Arsenal og hæsta verð sem Lyon hefur selt leikmann fyrir,“ segir Jean-Michel Aulas.

Arsenal datt í lukkupottinn fyrr í sumar þegar Alþjóðaíþróttadómstóllinn úrskurðaði Atlético Madrid í félagaskiptabann því Alexandre Lacazette var búinn að semja munnlega við spænska félagið.

Lacazette skoraði 28 mörk og lagði upp önnur þrjú í frönsku 1. deildinni á síðsutu leiktíð en í heildina skoraði hann 37 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×