Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Haukar 31-24 | Stjörnumenn fyrstir til að vinna Hauka

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Tandri Már skoraði sjö mörk.
Tandri Már skoraði sjö mörk. vísir/bára

Stjarnan fékk Hauka í heimsókn í Mýrinna í dag. Þetta var 14. og jafnframt síðasta umferðin í Olís- deild karla, fyrir jóla- og landsleikjahlé.

Stjarnan vann leikinn með sjö mörkum. Tandri Már Konráðsson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og átti Ólafur Rafn Gíslason og Stjörnuvörninn gríðarlega góðan leik en hann var með 13 bolta varða.

Fyrir umferðina voru Haukar taplausir á toppi deildarinnar með 23 stig en Stjörnumenn voru í 8. sæti með níu stig. Bæði lið halda sæti sínu í töflunni en kærkomin sigur fyrir Stjörnumenn að vera fyrsta liðið til að sigra Haukana.

Leikurinn fór fremur hægt af stað. Markmennirnir og varnarleikur liðanna voru í aðalhlutverki. Á 10. mínútu settu Stjörnumenn svo í 5. gír og eftir það var ekki aftur snúið. Liðin skyldu að með þriggja marka mun Stjörnunni í vil.

Í seinni hálfleik voru Stjörnumenn mun sterkari. Haukar reyndu að saxa á forskotið en Rúnar þjálfari Stjörnunnar og hans menn voru klókir og voru fljótir að stoppa Haukana af.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn voru mun þyrstari í sigur heldur en Haukar. Þeir náðu strax forystu á 10. mínútu og slepptu ekki takinu.

Þeir voru heilt yfir klókari í sóknarleiknum, vörnin var sterkari og Ólafur Rafn lokaði markinu. Þeir voru fljótir að refsa til baka og áttu Haukamenn erfitt með að finna glufu í vörninni hjá þeim.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá stjörnunni var Tandri Már atkvæðamestur með sjö mörk. Fast á hæla hans fylgdi Leó Snær Pétursson með sex mörk og voru þeir Andri Þór Helgason og Ari Magnús Þorgeirsson með fimm mörk.

Ólafur Rafn átti virkilega góðan leik í markinu, en hann varði 13 bolta og var með 36% markvörslu. Varnarleikur Stjörnunar var mjög góður og gerðu þeir Haukum erfitt fyrir.

Hjá Haukum var Orri Freyr Þorkelsson atkvæðamestur með átta mörk Hann var eini sem tók af skarið Haukamegin en það dugði ekki til.

Hvað gekk illa?

Heilt yfir gekk leikur Hauka illa. Þeir áttu erfitt með að finna glufu í gríðarlega sterkri vörn Stjörnumanna og var varnarleikur þeirra undir lok leiks galopin og Haukamenn áttu erfitt með að finna dampinn.

Þeir misstu svo hausinn á síðustu 20 mínútunum leiksins og nýttu Stjörnumenn sér það og komu sér í sex marka forystu sem þeir slepptu ekki hendinni af.

Hvað gerist næst?

Olísdeildin er komin í jóla- og landsleikjahlé. Deildin hefst að nýju í lok janúar. Þar taka Haukar á móti Fram þriðjudaginn 28. janúar, á sama tíma sækir Stjarnan Fjölnismenn heim og hefjast báðir leikirnir klukkan 19:30.

Strákarnir hans Rúnars virðast vera komnir á beinu brautina.vísir/bára

Rúnar: Sérstaklega ánægður með Óla í markinu

Rúnar Sigtryggson, þjálfari Stjörnunnar, var að vonum sáttur með sjö marka sigur hjá sínum mönnum á Haukum í dag, 31-24. Stjarnan er fyrsta liðið til að vinna Hauka í vetur.

„Ég er mjög ánægður með okkar lið, við náðum loksins að spila góðan leik og klára hann,“ sagði Rúnar.

Stjarnan hefur átt erfitt uppdráttar á tímabilinu en hafa verið að taka við sér í síðustu leikjum.

„Það er búið að vera langur aðdragandi að vinna leikina, en við erum að spila vel. Þessi kafli sem við erum að missa taktinn í okkar leik eru orðnir mjög stuttir og fáir. Það voru margir nýir í liðinu.“

Markmannsvandræði hafa verið hjá Stjörnunni og fengu þeir Finnboga Árnason til liðs við sig í þessum leik en hann er jafnframt sjötti markmaðurinn sem fer á skýrslu hjá þeim á þessum tímabili.

„Ég er sérstaklega ánægður með Óla í markinu, það voru margir markmenn búnir að reyna sig og er hann okkar fjórði markmaður og hann stóð sig frábærlega gegn sínu gamla uppeldisfélagi í dag,“ sagði Rúnar.

Leikur Stjörnunnar var gríðarlega góður í dag og voru þeir heilt yfir sterkari á öllum vígstöðum. Nú er komið jóla- og landsleikja hlé í deildinni og ætlar Stjarnan sér að halda þessum áfram.

„Nú reynum við að smyrja okkur saman og fá menn úr meiðslum, mæta að fullu afli í seinni hlutann og ná fleiri stigum en við gerðum í fyrri hlutanum,“ sagði Rúnar að lokum.

Gunnar sagði sigur Stjörnunnar hafa verið sanngjarnan.vísir/bára

Gunnar: Þýðir ekkert að hengja haus

Gunnar Magnússon var svekktur eftir tap sinna manna 31-24 á móti Stjörnunni í Mýrinni í dag. Haukar áttu erfitt uppdráttar í leiknum og fundu ekki svör við gríðarlega sterku liðið Stjörnumanna.

„Við erum svekktir með frammistöðuna, við vorum ekki góðir í dag bæði, vörn og sókn. Stjörnumenn voru betri en við á öllum sviðum og unnu þetta verðskuldað,“ sagði Gunnar.

Fyrir leikinn sátu Haukamenn taplausir á toppi deildarinnar með 23 stig og var Stjarnan fyrsta liðið til að landa sigri á móti þeim.

„Það er svekkjandi að tapa leik en við verðum að gefa Stjörnuliðinu kredit. Þeir hafa verið að spila vel síðustu leiki og vorum hreinlega betri en við,“ sagði Gunnar.

Nú er komið jóla- og landsleikjafrí í deildinni og Gunnar svekktur með að tapa síðasta leiknum fyrir fríið.

„Það er auðvitað erfitt að tapa leik, við höfum ekki tapað mörgum leikjum þetta árið, en þó að einn leikur tapist erum við enn í efsta sæti og erum sáttir með það,“ sagði Gunnar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira