Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Stjarnan 77-83 | Stjörnumenn komnir með fjögurra stiga forskot á toppnum

Gabríel Sighvatsson skrifar
Ægir átti góðan leik í Keflavík.
Ægir átti góðan leik í Keflavík. vísir/daníel

Keflavík tók á móti Stjörnunni í Blue-höllinni í kvöld en toppsætið í Dominos deild karla var í húfi. Keflavík vann fyrri leik liðanna en Stjarnan á ótrúlegri sigurgöngu fyrir leikinn.

Leikurinn byrjaði vel hjá Stjörnumönnum sem komust fljótt yfir og héldu forystunni alveg fram að 15. mínútu. Þá tók við frábær kafli hjá gestunum sem komust 11 stigum yfir og kláruðu fyrri hálfleik með 9 stiga forystu.

Keflavík komu tvíefldir til leiks í 3. leikhluta og jöfnuðu fljótt í 46-46. Þá tók við jafn leikur og Keflavík var tveimur stigum yfir þegar 3. leikhluta lauk.

Í 4. leikhluta tók við flugeldasýning hjá báðum liðum en bæði lið voru að skjóta niður töfraskotum en að lokum náði Keflavík ekki að halda í við gestina.

Nick Tomsick var búinn að vera slakur meirihluta leiks en setti síðan fullt af stigum í lokin og hjálpaði sínum mönnum að landa 83-77 sigri í kvöld.

Af hverju vann Stjarnan?

Leikurinn réðst á lokamínútunum og þar voru Keflvíkingar klaufar og Stjörnumenn nýttu allar sínar sóknir. Þetta var algjörlega 50/50 og í kvöld datt þetta Stjörnumegin. Nick Tomsick steig upp á réttum tímapunkti og vð höfum séð hann gera þetta áður.

Hvað gekk illa?

Leikurinn var ansi kaflaskiptur. Stjarnan var betri í fyrri hálfleik og sérstaklega í 2. leikhluta en Keflavík svaraði í þeim þriðja, fóru í svæðisvörn sem Stjarnan náði ekki að svara og jöfnuðu leikinn.

Í 4. leikhluta var þetta komið í skotkeppni en á lokamínútunni kemst Stjarnan tveimur stigum yfir. Keflavík skoraði ekki á lokamínútunni, misstu boltann og fengu dæmt á sig og það kostaði þeim leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Domynikas Milka var flottur í leiknum, skoraði 20 stig, náði 11 fráköstum og var illviðráðanlegur í kvöld. Deane Williams átti frábæran leik og kom sterkur inn að lokum. Hann skoraði 23 stig og náði 13 fráköstum.

Stjörnumenn töpuðu frákastabaráttunni í kvöld og stigaskorun dreifðist vel á milli manna. Frábær 4. leikhluti hjá Nick Tomsick skilaði honum 16 stigum, jafnmörgum og Urald King. King náði 8 fráköstum rétt eins og Ægir Þór og Kyle Johnson en Ægir Þór átti einnig 9 stoðsendingar.

Hvað gerist næst?

Stjarnan heldur áfram ótrúlegri sigurgöngu sinni og hafa nú unnið öll 11 liðin í deildinni í einum rykk. Toppsætið er þeirra og verður eflaust þeirra það sem eftir lifir tímabils.

Keflavík er í 2. sæti, 4 stigum neðar og 4 stigum fyrir ofan 3. sæti. Liðið sækir Valsara heim í næstu umferð á meðan Stjarnan tekur á móti hinu liðinu úr Reykjanesbæ, Njarðvík.

Hjalti Þór: Þetta var 50/50

Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun fyrir áhorfendur en þetta var ansi súrt tap fyrir Keflvíkinga. Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari liðsins, gat tekið undir það.

„Við skjótum eins og kjánar í kvöld og hittum ekki hringinn. Við erum með 20% þriggja stigs nýtingu, það er rosalega erfitt að vinna þegar hitt liðið er með 50% og þar fer svolítið leikurinn. Við erum að stoppa þá í hraðaupphlaupum, við erum að taka svipað mörg fráköst og þeir og gerum það sem við ætluðum að gera en svo bara hittum við ekki, það er eiginlega bara útskýringin.“

Keflvíkingar komust aftur inn í leikinn í 3. leikhluta og hefðu getað komið sér í enn betri stöðu í 3. leikhluta.

„Þeir eru með frábært lið, við vissum alveg að þeir myndu ekki guggna á þessari svæðisvörn en við ákváðum að henda í hana og það riðlaði leiknum hjá þeim. Síðan leit þeitta illa út þegar þeir voru komnir í takt þannig að við fórum aftur til baka. Við vorum allavegana komnir í leik og hefðum alveg getað tekið þennan, þetta var 50/50 í lokin.“

„Við ætlum að halda áfram að bæta okkur. Við eigum helling inni og við ætlum að verða bestir í „play-offs.“ sagði Hjalti Þór að lokum.

Arnar: Þetta var töfraskotskeppni

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var mjög ánægður með sigurinn en leikurinn var ansi kaflaskiptur.

„Mér fannst við ná ákefð upp í 2. leikhluta og svo missum við hann þegar við komum út í hálfleik varnarlega. Sóknarlega skorum við ekki en fáum fín „lúkk“ en þeir fóru mjög illa með okkur. Í 4. leikhluta var þetta eiginlega svona töfraskotskeppni. Við hittum alveg helling af ógeðslega lélegum skotum, þess vegna unnum við.“

„Við lentum í vandræðum með kerfi sem við vorum að skipta „big to big“ og þá óðu þeir inn á (Domynikas) Milka. Gott „adjustment“ hjá þeim í hálfleik og við lentum í tómu veseni út af því.“

Arnar var ekki á því að liðið hans hafi lent í basli þegar Keflavík fór að spila svæðisvörn á þá.

„Nei, ég er ekki sammála. Þú vilt fá góð skot, það er enginn að reyna að klikka. Við fengum miklu betri skot á móti svæðisvörninni heldur en við settum ofan í í 4. leikhluta. Hlynur leit út eins og Dirk Nowitzki, og Nick með skot sem voru svo vond að ég var að fara að taka hann út af þegar þau fóru ofan í. Ég hafði meiri áhyggjur af varnarleik þeirra í 4. leikhluta heldur en svæðisvörninni.“

Stjörnumenn hafa verið sterkir í fráköstununm á tímabilinu en töpuðu þeirri baráttu í kvöld. Það kom þó ekki að sök.

„Þeir jörðuðu okkur á okkar eigin bragði. Þeir eru með frábæra íþróttamenn og þessi Milka er bara... vá, hvað hann er flottur!“

Tomsick: Ég hélt bara haus

Nick Tomsick, leikmaður Stjörnunnar, átti stórkostlegan 4. leikhluta og átti stóran þátt í sigri kvöldsins. Hann var hinsvegar ekki góður framan af í leiknum.

„Körfubolti er 40 mínútna leikur, þú verður að halda haus. Okkur leið vel sóknarlega en ég var ekki að finna körfuna nógu vel. Ég hélt bara haus, við börðumst áfram og reyndum að gera gæfumuninn og þá gerast góðir hlutir.“

„Bæði lið spiluðu mjög vel í kvöld, einhver þurfti að tapa og ég er ánægður með að við unnum.“

Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir liðið þar sem þeir eru nú með 4ja stiga forskot á toppnum.

„Við reynum að verða ekki of sjálfsöruggir. Það hefur verið slagorð okkar á þessu tímabili eftir síðasta ár. Við ætlum að halda áfram að vera á bensíngjöfinni, taka einn leik í einu, reyna að hugsa ekki of mikið um það og bæta okkur.“

Að lokum var Nick spurður út í hvort liðið væri á leið í Þorrablót í Garðabæ en hann kannaðist ekki við það.

„Ég hef ekki hugmynd hvað við gerum eftir þetta.“

Hörður Axel: Í lok leikja á Tomsick ekki að vera með boltann

„Við skjótum 20% stig fyrir utan 3ja stiga. Við höfum verið að gera þetta svolítið að fínpússa okkur í hálfleik. Það gekk eftir lungan af seinni hálfleik en náum ekki að klára.“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði Keflavíkur, eftir leikinn en eftir ágætis fyrri hálfleik kom liðið með breytt skipulag og mikinn kraft inn í seinni hálfleik.

Eitt af því sem liðið gerði var að skipta yfir í svæðisvörn.

„Þeir hikstuðu aðeins á móti henni og við komumst inn í leikinn með henni, finnst mér. Þeir fundu svo glufur á henni og gerðu vel. Þá hoppuðum við aðeins á milli til að sjá hvernig þeir myndu bregðast við og mér fannst það virka ágætlega.“

Að lokum var lítið sem ekkert sem skildi liðin að og það var meðal annars smá töfrar frá Nick Tomsick sem kláraði einvígið í kvöld og Keflavík tapaði svo boltanum á lokamínútunni.

„Við vorum búnir að tala um það fyrir leikinn að í lok leikja á hann ekki að vera með boltann. Við vorum búnir að gera vel á móti honum mestmegnis af leiknum en hann kláraði ansi erfitt skot af kantinum og svo þetta vinstri handar „lay-up.“

Sóknarlega var ég að þröngva boltanum of mikið inn á Dom (Milka) sem var mjög dýrt „turnover“ og ég tek það á mig.“

Keflavík gerði vel á móti erfiðu liði og leikurinn hin mesta skemmtun þó ekki hafi úrslitin verið Herði Axel og hans mönnum í vil.

„Þeir lifa bæði á „transition“ leik og sóknarfráköstum. Við vissum að ef við myndum „limit-a“ það tvennt ættum við meiri séns á að vinna. Mér fannst við gera vel í báðum hlutum í dag en það er erfitt að stoppa þá alfarið. Þeir eru hörkulið og alltaf gaman að spila á móti þeim.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira