Markalaust hjá Manchester United og Wolves

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Diego Dalot fékk gullið tækifæri undir lok leiks.
Diego Dalot fékk gullið tækifæri undir lok leiks. Vísir/Getty

Manchester United og Wolverhampton Wanderers gerðu markalaust jafntefli á Old Trafford í síðasta leik dagsins í enska boltanum. Var þetta fyrsti leikur Bruno Fernandes fyrir Man Utd en hann lék allan leikinn á miðju liðsins.

Líkt og undanfarnir leikir liðanna þá var lítið um opið marktækifæri í dag. Gestirnir sterkari ef eitthvað var í fyrri hálfleik en staðan markalaus þegar flautað var til lokahans. Í þeim síðari lifnaði yfir heimamönnum í Manchester United og voru þeir næstum búnir að skora þegar skot þeirra fór af tveimur varnarmönnum þeirra en Rui Patrico náði að bjarga í marki Wolves.

Varamaðurinn Diego Dalot fékk svo gullið tækifæri til að tryggja Man Utd stigin þrjú í uppbótartíma en bakvörðurinn ungi hitti boltann illa rétt fyrir framan markið og lokatölur því 0-0.

Bruno Fernandes lék líkt og áður kom fram sinn fyrsta leik fyrir heimamenn og átti ágætis leik. Reikna má með honum enn sterkari þegar líður á en hann hefur aðeins náð einni æfingu með liðinu. Odion Ighalo var ekki enn mættur til Manchester en liðið hefði vissulega haft not yfir annan framherja í dag er Anthony Martial átti arfaslakan leik í framlínu liðsins.

Jafnteflið þýðir að Manchester United komst upp fyrir Sheffield United í töflunni og er því í 6. sæti deildarinnar með 35 stig. Sex stigum frá 4. sætinu gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Wolves er einnig með 35 stig en lakari markatölu og því í 7. sæti.


Tengdar fréttir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira