Viðskipti innlent

Bjóða ódýrasta flugið - ef þú skilur farangurinn eftir

WoW Air.
WoW Air.
„Þetta er alveg glænýtt," segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air en ferðaskrifstofan auglýsir einstaklega lág fargjöld til Parísar og Kaupmannahafnar í Fréttablaðinu í dag.

Sá böggull fylgir hinsvegar skammrifi að töskugjald er ekki innifalið. Þannig ef viðkomandi vill fara farangurslaus til þessarar borga þá geta þeir greitt tæplega tíu þúsund fyrir. Ef þeir vilja hafa föt til skiptanna, kostar miðinn 12.800 krónur aðra leið.

„Þetta er svipað og önnur lággjaldafélög gera annarsstaðar. Þannig býður Easy-jet upp á þetta og Ryanair," segir Svanhvít þegar hún útskýrir þessa nýjung á íslenskum ferðamarkaði.

Hún bendir ennfremur á að þetta sé einnig valmöguleiki fyrir þá sem vilja ferðast létt og hafa engan hug á því að taka með sér tösku í ferðalagið.

„Svo má náttúrulega taka allt að 8 kíló með sér í handfarangur," bætir Svanhvít við.

Aðspurð hvort það þurfi ekki að taka þessa tilhögun sérstaklega fram í auglýsingunni í Fréttablaðinu svarar Svanhvít því að það nægir að auglýsa fyrirkomulagið skilmerkilega á heimasíðu félagsins, sem og er gert.

„Og þó töskugjaldið bætist við þá er þetta með lægstu verðunum í dag," segir Svanhvít að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×