Viðskipti innlent

Blóðbað á markaði, íbúðabréf falla um 14%

Lagasetningin um hert gjaldeyrishöft á Alþingi í nótt kallaði fram mikil viðbrögð á skuldabréfamarkaði í morgun. Þannig hafa stutt íbúðabréf eða flokkurinn HFF14 lækkað um 14% í verði og HFF24 hafa lækkað um 2,5%. Þessar lækkanir hafa síðan smitað út frá sér yfir í ríkisskuldabréf.

Valdimar Ármann hagfræðingur hjá GAMMA segir að þessar lækkanir komi ekki á óvart og að markaðsaðilar hafi verið viðbúnir þeim eftir að herðingin á höftunum var samþykkt í nótt.

HFF14 íbúðabréfin eru þau stystu á markaðinum og því vinsæl meðal þeirra erlendu fjárfesta sem hafa viljað koma krónum sínum úr landi. Valdimar telur að það séu einkum hinir erlendu fjárfestar sem selt hafa bréf sín í morgun. Sem dæmi um veltuna má nefna að bréf úr flokknum HFF24 hafa selst fyrir yfir þrjá milljarða króna.

Fallið á íbúðabréfunum hefur síðan smitað út frá sér yfir í ríkisskuldabréf en þar er lækkunin ekki nándar nærri eins mikil. Lækkunin er á bilinu 0,2 til 2,5% ríkisbréfaflokkunum. Raunar segir Valdimar að óverðtryggð ríkisskuldabréf hafi nokkurn veginn haldið sjó í morgun og aðeins lækkað um 0,5%.

Þess má og geta að Íbúðalánasjóður sendi frá sér tilkynningu til Kauphallarinnar í morgun þar sem sjóðurinn heimilaði aðalmiðlurum sínum að vinna með aukið verðbil á milli sölu- og kauptilboða fyrsta klukkutímann eftir opnun markaða. Þetta var gert vegna markaðsaðstæðna að því er segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×