Viðskipti innlent

Eitt elsta kaffihús landsins til sölu - Finni vill tilbreytingu

VG skrifar
„Þetta er bara spurning um tilbreytingu, ég vil breyta til og halda mér ferskum," segir Guðfinnur Sölvi Karlsson, eða Finni eins og hann er að jafnaði kallaður, en hann hefur sett á sölu fjóra veitingastaði í sinni eigu og skyndibitabíl. Meðal veitingastaða sem eru til sölu er eitt elsta kaffihús Reykjavíkur, Prikið. Af öðrum stöðum sem Finni hefur sett á sölu eru veitingastaðirnir Frú Berglaug, Glaumbar, Gamla Gaukinn, áður Gaukur á stöng, auk þess sem hamborgarabíllinn Rokk Inn er einnig falur.

Það er Fasteignamarkaðurinn sem sér um söluna en auglýsing birtist í fjölmiðlum í dag þar sem staðirnir voru auglýstir til sölu.

Finni hefur rekið Prikið í tíu ár. Síðar opnaði hann kaffihúsið Frú Berglaug á Laugaveginum auk þess sem hann hefur starfrækt Glaumbar og Gaukinn síðustu ár. Það er því óhætt að segja að Finni sé umsvifamikill í veitingahúsabransanum í Reykjavík.

Aðspurður hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur, selji hann staðina, svarar Finni: „Það er ýmislegt í gangi hjá vitleysingum eins og mér."

Finni bætir við að hann sé að leita að tilbreytingu auk þess sem fjölskylduhagur hafi breyst töluvert síðustu tíu ár.

Sjálfum fannst Finna þó erfiðast að tilkynna fastakúnnum Priksins að hann væri að hyggja á nýjan vettvang í viðskiptum. „Það var smá sjokk út af þessu. Nokkrir fastakúnnar krefjast þess að ferlinu verði breytt í raunveruleikaþátt þannig þeir geti haft eitthvað um nýja eigendur að segja," segir Finni hlæjandi.

Hann bætir þó við að það sé ekkert endanlega ákveðið í þessum efnum. Auglýsingin birtist fyrst í dag en Finni segist hafa fundið fyrir miklum áhuga.

Spurður hver verðmiðinn sé svarar Finni hlæjandi: Nó komment. En það verður ekki skipt á húsi og kindum, það er alveg á hreinu."

Áhugasamir geta haft samband við fasteignasalann Guðmund Th. Jónsson sem er með póstfangið gt@fastmark.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×