Innlent

Sömu þjófar stálu sömu hlutum

Tilkynnt var um innbrot í iðnaðarhúsnæði í Súðarvogi snemma á sunnudagsmorguninn. Fljótlega kom í ljós að þjófarnir voru hinir sömu og handteknir voru í Breiðholti aðfaranótt sunnudags, vegna innbrots í Hafnarfirði. Þaðan höfðu þremenningarnir stolið fyrirtækisbíl sem þeir klesstu á ljósastaur í Seljahverfi og skemmdu mikið. Að sögn lögreglu fannst þýfi úr innbrotinu í Súðarvogi í bílnum og reyndist samskonar og tekið hafði verið ófrjálsri hendi í Hafnarfirði; eða tölvubúnaður og rafsuðuvélar. Þjófarnir unnu mikil skemmdarverk á báðum stöðum, spörkuðu upp hurðum og brutu og brömluðu, auk þess sem blaðið veit til þess að á báðum stöðum hafi verið skitið í ruslafötur. Lögregla segir fótspor hafa komið upp um þjófana, sem og varningurinn sérstæði sem stolið var. Mennirnir voru allir undir áhrifum áfengis og hafa ekki komið við sögu lögreglunnar áður. Þeir voru handteknir á Nikkabar í Efra-Breiðholti, en sjónarvottar bentu lögreglu á þann felustað þjófanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×