Innlent

Reyndu að brjótast inn í hrað­banka

Atli Ísleifsson skrifar
Ellefu gista nú fangageymslu lögreglu eftir nóttina.
Ellefu gista nú fangageymslu lögreglu eftir nóttina. Vísir/Vilhelm

Tveir menn hafa verið handteknir eftir að þeir reyndu að brjótast inn í hraðbanka á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Ekki er tekið fram hvar á höfuðborgarsvæðinu atvikið átti sér stað nema að það átti sér stað á svæði lögreglustöðvar 2 sem nær yfir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes.

Fram kemur að mennirnir hafi ekki haft erindi sem erfiði en þeir hafi verið stöðvaðir af lögreglu við verknaðinn. Báðir mennirnir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Fram kemur að ellefu gisti nú fangageymslu eftir nóttina, en alls var 51 mál skráð í kerfum lögreglu á bilinu 17 síðdegis í gær til klukkan fimm í morgun.

Eldur á iðnaðarsvæði

Í tilkynningunni segir að einnig hafi verið tilkynnt um eld á iðnaðarsvæði þar sem hafði kviknað í gömlum rafhlöðum. Þó hafi orðið lítið tjón þar sem eldurinn hafi kviknað utandyra, en slökkvilið var kallað á staðinn og slökkti eldinn fljótt.

Lögregla var einnig kölluð til vegna umferðaróhapps á svæði lögreglustöðvar 3 – sem nær yfir Kópavog og Breiðholt – þar sem ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×