Skoðun

Allir fyrir einn

Ég er eitt þeirra foreldra sem þarf að bregðast við með einhverjum hætti ef kennarar fara í verkfall. Sumir hafa verið að ræða á þeim nótum að það sé í raun fáránlegt að kennarar hafi verkfallsrétt. Slíkt ætti ekki að vera fyrir hendi frekar en hjá slökkviliðsmönnum eða lögreglunni. Flestir sem eru á þessari skoðun virðast telja að það skipti þar mestu máli að krísuástand myndist á vinnustöðum eða að þetta sé til óhagræðis fyrir foreldrana. Jafnvel hefur verið sagt (vonandi í gríni) að kennarar ættu bara að fara í verkfall í júlí þegar þeir eru í fríi hvort eð er.

Upp frá þessu hef ég verið að hugsa um verkföll almennt og velta því fyrir mér hvort verkfallshugsunin sé okkur það langt að baki að við höfum einhvern veginn gleymt til hvers þetta tæki er notað. Verkfall á ekki að vera neinum til hagræðis og er það allra síst þeim sem fara í verkfall. Í kjaraviðræðum er það bara oft svo að þeir sem eru að semja telja að sumu sé þess vert að fórna til að ná fram hagstæðum samningum. Ef gripið er til þess neyðarúrræðis sem verkfall er, væri mjög hentugt fyrir alla þá sem ekki koma beint að samningaborðinu að verkfallið hefði engin áhrif á þá. Slíkt er bara ekki eðli verkfalla. Er þetta einhver vaxandi einstaklingshyggja og "ekki í mínum bakgarði" hugsun sem vex fiskur um hrygg þegar óskhyggja um annað er látin í ljós? Getur verið að við látum hluti í léttu rúmi liggja, svo lengi sem þeir hafa ekki slæm áhrif á okkar líf og höldum bara áfram að reyna að vinna okkur inn fyrir salti í grautinn, íþróttaskónum, jeppanum og þessum utanlandsferðum. Það er kannski spurning um að skella sér í verkfall til að berjast fyrir samhugnum, áður en við förum almennt að líta undan þegar við sjáum fólk í vandræðum, í stað þess að leggja þeim lið.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×