Erlent

Biðla til Blairs vegna gísls

Írakskir öfgamenn tóku bandarískan gísl af lífi í nótt og hóta að myrða tvo til viðbótar verði ekki orðið við kröfum þeirra. Mannræningjarnir myrtu Bandaríkjamanninn Eugene Armstrong og birtu myndband af því á síðu íslamskra öfgamanna. Á myndbandinu situr Armstrong með bundið fyrir augun og rær fram í gráðið á gólfinu fyrir framan öfgamennina á meðan þeir lesa upp tilkynningu. Þegar því er lokið ræðst einn mannanna á Armstrong með hnífi og sker af honum höfuðið. Nú hótar þessi öfgahópur að gera slíkt hið sama við tvo aðra gísla, Breta og Bandaríkjamann, ef ekki verður orðið við kröfum þeirra innan sólarhrings. Þeir krefjast þess að tveimur kvenföngum í Abu Ghrain og Umm Quasar fangelsunum verði sleppt. Bush Bandaríkjaforseti lýsti því yfir áður en myndbandið var sett á Netið að hann myndi aldrei semja við hryðjuverka- og gíslatökumenn og því þykir ólíklegt að hinum gíslunum verði bjargað. Ættingjar Kenneth Bigley, breska gíslsins, hafa þrábeðið Tony Blair, forsætisráðherra Breta, um að gera allt sem hann getur til að bjarga lífi Bigleys. Sonur Bigleys kom fram í sjónvarpi og bað Blair um að sýna miskunn og sleppa þessum tveimur kvenföngum. Talið er að um sé að ræða tvær konur sem störfuðu með Saddam Hússein en sitja nú í haldi Bandaríkjahers. Myndin er af Kenneth Bigley.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×