Innlent

Skylda að nota belti

Lagaskylda er að nota bílbelti í rútum, ef belti eru til staðar. Óli H. Þórðarson, formaður Umferðarráðs, segir banaslys að undanförnu, þar sem belti voru ekki notuð, gríðarlegt áfall. Lögreglan í Borgarnesi segir að af fjörutíu manns sem voru í rútunni sem fór á hvolf undir Akrafjalli í gær, hafi einungis þrír verið spenntir í belti. Þessir þrír voru jafnframt þeir sem minnst meiddust. 37 manns í rútunni notuðu því ekki bílbelti þótt skylt sé að nota belti í rútum, ef þau eru til staðar. Óli H. segir belti hafa verið í öllum sætum og því hafi greinilega verið um hræðilegan trassaskap að ræða. Óli var á sínum tíma, sem framkvæmdastjóri Umferðarráðs, helsti baráttumaður fyrir lögleiðingu bílbelta hérlendis. Þrátt fyrir skýr lög hafa á síðustu tíu dögum orðið tvö banaslys hérlendis þar sem verulegar líkur eru taldar á að bílbelti hefðu getað bjargað mannslífum. Annarsvegar slysið í Þjórsárdal þar sem tveir létust og hins vegar slysið í Skagafirði síðastliðinn sunnudag þar sem einn maður lést, en þeir sem biðu bana voru ekki í bílbeltum. Óli segir þetta gríðarlegt áfall fyrir alla aðila sem reynt hafa að hvetja til bílbeltanotkunar. Fólk verði að sýna meiri skynsemi og lögreglan verði að taka harðar á þeim sem ekki noti belti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×